Aukin skjálftavirkni á stjórnarheimilinu
Vinstri græn er afdráttarlaus. Fyrirhugaðar flóttamannabúðir koma ekki til greina. Hvað sem svo verður. Afstaða VG hreyfir við Valhellingum. Jón Gunnarsson bregður fyrir sér betri fætinum og sparkar í áttina að Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Jón sakar Svandísi um að vilja rústa einkarekinni heilbrigðisþjónustu.
Jón lætur sem hann sé móðgaður fyrir hönd einkarekinna heilsugæslustöðva. Hann telur til ágæti stöðvanna og starfsfólksins þar og segir svo í Moggagrein sinni:
„Þrátt fyrir þetta undanskildi heilbrigðisráðherra þessar stöðvar í þakklætisvotti vegna Covid síðastliðið sumar, sem og Læknavaktina. Þarna eru aðilar einvörðungu skildir út undan vegna rekstrarforms og hugsanlega fordóma ráðherrans. Læknavaktin brást við Covid með margföldun á símsvörun og læknar hennar fóru í vitjanir til Covid-sjúkra strax í upphafi faraldursins, þó nokkru áður en Covid-deild kom til. Jafnframt má nefna að einn læknir Læknavaktarinnar veiktist síðan af Covid eftir slíkar vitjanir og glímir enn við eftirstöðvar þess.“
Jón víkur einnig að rekstrarforminu og segir: „Hæstvirtur heilbrigðisráðherra þakkaði forystu VG fyrir góðan árangur í heilbrigðismálum í nýlegri grein í Morgunblaðinu. En lítum nú aðeins á staðreyndir. Á árunum 2014-2016, undir forystu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytinu, var fjármögnunar- og gæðakerfum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gerbreytt. Komið var á nútímafjármögnunarkerfi þar sem horft var í þjónustuþörf einstaklinga, þar sem börn, aldraðir og fjölveikir voru settir í forgang. Jafnframt var komið á gæða- og aðgengisviðmiðum. Fjármagn fylgdi síðan hverjum og einum sem hefur nú val um hvert viðkomandi sækir þjónustu. Þá voru boðnar út nýjar heilsugæslur sem voru opnaðar árið 2017; Heilsugæslan Höfða og Heilsugæslan Urðarhvarfi.“
Eftir þessa breytingu hefur aðgengi að heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu stórbatnað. Afkastaaukning í viðtölum milli ára hefur numið allt að 10% og er Heilsugæslan Höfða orðin stærsta heilsugæslan á svæðinu með rúmlega 20 þúsund skjólstæðinga sem hafa sjálfir valið að skrá sig þar. Frábær árangur á aðeins þremur árum.“
Nú kemur olnbogaskot frá Jóni: „Heilbrigðisráðherra hefur ekki svarað tilmælum Samkeppniseftirlitsins um úrbætur varðandi mismunun á rekstrarforsendum. Þar eru þrjú atriði sérstaklega tiltekin. Landspítalinn hyglir opinberu heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í rannsóknarverði sem er tugum prósenta undir því sem öðrum býðst. Opinbera heilsugæslan sleppur við virðisaukaskatt af aðkeyptri vinnu og fær fríar tryggingar fyrir starfsfólk sitt. Þetta taldi Samkeppniseftirlitið ekki í lagi, en ráðherrann gerir ekkert til að leiðrétta.“
Í lok greinarinnar segir Jón Gunnarsson: „Að lokum má benda á að reksturinn hjá þessum fjórum sjálfstæðu heilsugæslum og Læknavaktinni var í járnum eða með tapi á liðnu ári. Er það kannski vilji ráðherra að þessi starfsemi hverfi af sjónarsviðinu? Það væri sorglegt ef horft er til árangurs þessara aðila. Mikilvægt er að stjórnsýsla heilbrigðismála sé fagleg og aðilum sé gert jafn hátt undir höfði. Að fordómar og hreppapólitík séu tekin út úr heilbrigðispólitík. Skattfé er takmarkað og mikilvægt að aukin sé skilvirkni í kerfinu þannig að þeir sem þurfa á þjónustu á að halda fái sem besta þjónustu.“