„Ég hef lýst efasemdum í gegnum tíðina um þessi lögþvingunarúrræði,“ sagði þingflokksformaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þegar Alþingi fjallaði um tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar um sameiningu sveitarfélaga.
Ríkisstjórnin stendur að baki Sigurðar Inga. En andstaðan er mikil innan ríkisstjórnarflokkanna. Miðjan hefur áður greint frá andstöðu Óla Björns Kárasonar. Sérstaklega er gagnrýnt að sveitarfélög verði að lágmarki með eitt þúsund íbúa. Því hefur verið mótmælt af krafti.
„Það þarf að velta því upp hvort viðmiðið þurfi endilega að vera 1.000 íbúar af því það hefur ekki komið beinn rökstuðningur fyrir því hvers vegna miðað er við þá tölu, það er bara einhver niðurstaða. Það þarf að taka þetta út og horfa til þess hvaða sveitarfélög það væru sem gætu óskað eftir undanþágum frá 1.000 manna markinu, væru kannski 600 eða 700 manna og landfræðilega væri enginn akkur í því beinlínis að sameinast stærra svæði. Það væri áhugavert að sjá slíkt í ljósi þess hve þetta mál reynist snúið,“ sagði Bjarkey Olsen. „Það er ekki hægt að líta fram hjá því að á þessum aukafundi Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem tillagan var samþykkt og studd af hálfu sambandsins, voru líka lítil sveitarfélög sem voru flest hver ekki sammála þeirri nálgun og fannst yfir sig valtað.“