Aukaíbúðir leysa ekki vandann
„…í hræðilegri stöðu út af húsnæðiskreppunni…“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, segir auknar heimildir í húsnæðismálum fyrst og fremst þjóna húseigendum. Það komi húseigendum vel að kerfið sé einfaldað vilji þeir bæta við íbúðum. Þetta má lesa í Mogganum í dag.
„En þetta er engin töfralausn á húsnæðiskreppunni. Það er jákvætt að heyra að mögulega geti fleiri íbúðir komið á leigumarkaðinn en það þjónar fyrst og fremst húseigendum sem geta þá gert breytingar á sínu húsnæði. Þótt það komi mögulega fleiri íbúðir á markaðinn eru þá væntanlega fyrst og fremst einkaaðilar leigusalar.
Við styðjum hins vegar að óhagnaðardrifin leigufélög séu ráðandi. Það er ekki staðan í dag. Maður veit heldur ekki hversu margir geta nýtt þetta og þannig komið fleiri íbúðum á leigumarkaðinn. Þetta er gott fyrir húseigendur en ég sé ekki að þetta sé gott fyrir þá sem eru verst settir á húsnæðismarkaði. Þeir eru í hræðilegri stöðu út af húsnæðiskreppunni og greiða hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Borgin skapaði þessa stöðu og maður sér ekki að húseigendur muni setja fjölda leiguíbúða á markaðinn,“ segir Sanna Magdalena við Moggann.