„Við afgreiðslu ársreiknings 2018 stóðu skuldir borgarinnar í 299 milljörðum en standa nú í 386 milljörðum. Þannig hafa skuldir borgarinnar aukist um 87 milljarða króna frá því að þessi meirihluti tók við. Þetta þýðir að hver fjögra manna fjölskylda skuldar 12 milljónir sé mið tekið af heildarskuldum borgarinnar við síðustu áramót,“ segir Eyþór í tilkynningu frá honum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa staðfest ársreikninginn með fyrirvara vegna uppgjörsaðferða borgarinnar vegna Félagsbústaða sem Sjálfstæðismenn segja ekki vera í samræmi við lög.
„Á einu ári hafa skuldir samstæðu borgarinnar aukist um 41 milljarð króna, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum einasta mánuði. Þetta samsvarar 112 milljónum á degi hverjum,“ segir Eyþór og bætir við: „Í upphafi kjörtímabilsins var uppgreiðslutími skulda 6 ár og hefur hann nú nær tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir stórauknar tekjur. Þetta er bara eitt dæmi um að rekstur borgarinnar stendur höllum fæti.“
Þá bendir Eyþór að Reykjavíkurborg sé eina af fjórum stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu sem skilaði tapi.
„Rétt er að benda á að Reykjavík er eina af fjórum stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu sem skilar tapi en afgangur var á rekstri Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Þá áttu ferðaþjónustan að skila átta milljarða tjóni samkvæmt furðulegum útreikningum Reykjavíkurborgar frá 27. febrúar 2020. Nú spyrja menn sig hvers vegna borgin skili þá ekki hagnaði úr því að tapið var svona mikið af ferðaþjónustunni en fátt er um svör eðli málsins samkvæmt.“
„Vandinn er sá að meirihlutaflokkarnir stuðluðu að skuldasöfnun borgarinnar í mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar en hirtu ekki um að hagræða þrátt fyrir fyrirheit um annað í meirihlutasáttmálanum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu ítrekað að benda á þá staðreynd þegar borgin var í miklum færum til þess að greiða niður skuldir en á það var ekki hlustað,“ segir Eyþór.
Eyþór telur að réttast væri að snúa vörn í sókn með fjölgun hagstæðra lóða, sölu á ónauðsynlegum eignum og nútímavæðingu rekstrar borgarinnar.
„Við verðum að sýna ábyrgð og snúa vörn í sókn. Við viljum í þeim efnum fjölga hagstæðum lóðum í borgarlandinu, selja ónauðsynlegar eignir eins og Malbikunarstöðina Höfða og nútímavæða reksturinn. Það er hægt ná jafnvægi í rekstri Reykjavíkurborgar með slíkum viðsnúningi sem mun þá jafnframt skila sér til bæði fyrirtækja og heimila,“ segir Eyþór.
Allt er þetta byggt á tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.