- Advertisement -

Auðtrúa forsætisráðherra

Það er ekki bara Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem sýnir hversu auðtrúa hún er. Það hafa fleiri stjórnmálamenn gert frá því gær. Katrín hélt fund með fulltrúum allra stjórnmálaflokka um hvað verði næst gert við endurnýjun stjórnarskrárinnar.

Að fundi loknum sagðist hún bjartsýn á að stjórnarskránni verði breytt á allra, allra næstu árum. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var líka bjartsýnn. Andinn á fundinum var víst þannig.

Þessu auðtrúa fólki verður að benda á staðreyndirnar. Og að með öllu er ástæðulaust að fagna.

Staðreyndir eru meðal annars þessar. Hvorki Katrín né Logi ráða þessu, ekki eitt einasta augnablik. Þar sem stjórnmálaflokkarnir allir eru sammála um að breytingar á stjórnarskrá verði að gera í sátt allra flokka, er þar með ákveðið að sá sem skemmst vill ganga hann ræður förinni. Hann hefur gert það frá því að þjóðin samykkti nýja stjórnarskrá, árið 2012. Og komist upp með það.

Sjálfstæðisflokkurinn veit að hann ræður þessu, einn og óstuddur. Ástæðulaust er með öllu að ætla að það breytist núna. Veigamiklum atriðum stjórnarskrárinnar verður ekki breytt meðan staðan er þessi, og hún breytist ekki.

Katrín Jakobsdóttir á ekki séns í Sjálfstæðisflokkinn, þegar kemur að þessu, og reyndar svo mörgu öðru, ekki frekar en nokkur annar flokkur.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki breyta stjórnarskránni. Því verður henni ekki breytt. En hvers vegna? Jú, vegna þess að aðrir flokkar, þjakaðir af þrælsótta, hafa samþykkt að breytingar verði ekki gerðar nema í sátt allra flokka.

Meira þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: