Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Í mínum huga er þetta grafalvarlegt mál sem þarfnast svo sannarlega skoðunar því það er mjög alvarlegt ef fiskvinnslufólk fer í enn auknu mæli að missa atvinnuna og lífsviðurværi sitt. Ekki bara að verið sé að ógna lífsviðurværi fiskvinnslufólks með því að stórauka útflutning á óunnum fiski heldur einnig mun þetta bitna illilega á útsvarstekjum sveitarfélaga.
Það á ekki að vera og má ekki vera einkamál útgerðarmanna hvernig þeir umgangast okkar sameiginlegu sjávarauðlind, enda eigum við að nota okkar auðlindir til atvinnusköpunar fyrir okkur og það gerum við ekki með því að senda fiskinn í auknum mæli óunninn erlendis.
Það er mikilvægt fyrir útgerðarmenn að fara að reyna að skilja það að þeir bera samfélagslegar skyldur gagnvart almenningi og byggðarlögunum og þeir verða að átta sig á því að það eru þjóðarhagsmunir sem liggja í því að við nýtum sjávarafurðir okkar til atvinnusköpunar en það gerum við ekki með því að senda sjávarafurðir óunnar úr landi eins og áður sagði.