Alþingi „Að mínu viti hafa störf þingsins dregið úr mér allan kraft og ánægju í allt haust. Ég hef lagt fram þrjár þingsályktunartillögur og eitt lagafrumvarp. Elsta málið af þessum mun verða þriggja ára innan nokkurra vikna og hin eru öll orðin tveggja ára gömul og hafa ekki fengist rædd í þinginu. Á sama tíma hefur atvinnuveganefnd ekki fundað vikum saman.“
Þetta sagði Ásmundur Friðriksson á Alþingi í dag.
„Þessi fjögur fátæklegu mál sem ég hef lagt fram hafa verið undirbúin af stórum hópi fólks sem hefur haft áhuga á þeim og þar fyrir utan hafa starfsmenn þingsins lagt mér lið í þeirri vinnu. Ég hef lagt það fram við þingflokksformann og þingflokksformannafund um að taka þessi mál á dagskrá. Á næsta ári verða þrjú ár liðin frá því að ég lagði fyrsta málið fram og það var minni háttar þingsályktunartillaga um slægingarstuðul. Ég verð að segja eins og er að mér er skapi næst að hætta við að leggja þessi mál fram og vera ekkert að eyða tíma mínum í þau og svekkja mig á því að fá ekki málin mín rædd svo árum skiptir.“
„Ég er oft hissa á störfum þingsins og ætla ekki að gera mikið upp á milli methafanna í ræðutíma. Það þurfa methafarnir sjálfir að gera upp sín á milli. En nú kemur að því að mælikvarði þingsins á dugnað þingmanna verður mældur með því að krýna ræðukónginn en það er minna rætt um störf í nefndum eða tengslin við kjósendur, sem þykir ekki jafn merkilegur mælikvarði.“