Atvinnulausir fái desemberuppbót
Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Ég tek undir með forseta ASÍ: Stjórnvöld eiga að tryggja atvinnulausu fólki desemberuppbót sambærilega við þá sem samið hefur verið um í kjarasamningum. Hjá fólki sem hefur lítið á milli handanna skiptir desember-uppbótin mjög miklu máli. Það er sjálfsagt og eðlilegt að létta aðeins á áhyggjum þeim sem nú kvelja stóran hóp fólks. Og þeim sem ekki fengu mikið gefið af samhygðinni í vöggugjöf má benda á að desember-uppbót til fólks sem ekki hefur vinnu vegna sóttvarnaraðgerða mun skila sér beint út í hagkerfið; fólk mun nota þær til að kaupa jólamat og jólagjafir.
Hjá láglaunafólkinu sem nú er án atvinnu er neyðin mikil. Hver einasta króna fer í að standa skil á leigu. Þegar hún hefur verið greidd er ekkert eftir. Þess vegna þarf fólk að leita til hjálparsamtaka til að fá mat og aðrar nauðsynjar. Stórkostlegri erfiðleikar hjá þessum hópi fólks eru tilkomnir vegna efnahagslegra aðgerða og aðgerðaleysis til margra ára; lág laun í einu dýrasta landi heims og húsaleiga á gróðavæddum húsnæðismarkaði í hæstu hæðum árum saman hafa gert það að verkum að lágtekjufólk hefur ekki getað lagt fyrir eða keypt sitt eigið húsnæði. Þegar að atvinnuleysið skellur á stendur fólk uppi bókstaflega slyppt og snautt. Engir sjóðir, engar eignir. Og enginn til að kaupa vinnuaflið þeirra.
Líkt og Drífa segir: Það minnsta sem hægt er að gera er að veita atvinnulausu fólki desember uppbót. Ég vona af öllu hjarta að þau sem fara með völd á þessu landi, þrátt fyrir að þau sjálf hafi aldrei þurft að telja hverju einustu krónu eða biðja um mat fyrir börnin sín, sjái að þeim ber siðferðileg og pólitísk skylda til að gera þetta.