Neytendur Þrátt fyrir vætutíðina, hér suðvestanslands, í júli virðist ekkert hafa verið gefið eftir hvað varðar grillmáltíðir. Meira var keypt, bæði af mat og drykk, í júlí í ár en í sama mánuði í fyrra, sem nam um fjórum prósentum. Trúlegast hefur fjöldi ferðamanna einnig haft sitt að segja. Eins verður að líta til þess að dagvara, föt og raftæki hefur lækkað milli ára.
Athyglisvert er að á undanförnum árum hefur dregið úr vægi á veltu í matvöru fyrir verslunarmannahelgina í samanburði við aðrar helgar sumarsins. Matarinnkaup fyrir aðrar helgar í júlí eru svipaðar og fyrir verslunarmannahelgina.
Þetta er niðurstaða rannsóknaseturs verslunarinnar.
Eftirtektarvert er að fataverslun jókst umtalsvert í júlí, eða um 9,1% að raunvirði frá sama mánuði í fyrra. En fataverslun hefur verið í töluverðri lægð að undanförnu eins og kunnugt er. E. t. v. ræður veðrið einhverju um aukna fataverslun í júlí auk þess sem þriggja prósenta verðlækkun á fötum hefur sín áhrif.
Sala á öðrum sérvörum, eins og raftækjum og húsgögnum, eykst einnig hröðum skrefum. Dæmi um þetta er að sala sérverslana með rúm jókst um 34,5% í júlí frá sama mánuði í fyrra. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs var sala á rúmum 15,4% meiri en sömu mánuði í fyrra. Þá jókst sala á farsímum um 27,5% í júlí svo dæmi sé tekið.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 3,7% á föstu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 3,4% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í júlí um 4,1% frá sama mánuði árið áður. Verð á dagvöru lækkaði um 0,3% á síðastliðnum 12 mánuðum.
Sala áfengis jókst um 4,9% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 6,7% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis í júlí um 2,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1,7% hærra í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 9,1% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,0% lægra í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 2,7% í júlí á föstu verðlagi og jókst um 5,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í júlí um 3,1% frá júlí í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 16,3% meiri í júlí en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 16,9% á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 34,5% frá því í fyrra á föstu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 4,9% á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum hækkaði um 0,5% á síðustu 12 mánuðum.
Velta í sölu á tölvum í júlí var 22,7% meiri á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 27,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 8,8% á föstu verðlagi og sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,0% á milli ára. Verð á raftækjum lækkaði á síðustu 12 mánuðum um 3,2%.