Formaður Öryrkjabandalagsins segir ákvörðun um skerðingu til öryrkja hafa komið sér á óvart.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins: „Þetta kemur mér verulega á óvart og ég átti engan vegin von á þessu.“
Þetta voru viðbrögð hennar vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um draga úr fjárveitingum til öryrkja um 1.100 milljónir króna.
En hvað getið þið gert, mótmælt?
„Já. við munum mótmæla þessu og óska eftir skýringum. Við getum lítið gert annað en að reyna að ná athygli ráðamanna og vonast til að þeir endurskoði þessar hugmyndir sínar um sparnað. Ég hef ekkert við það að athuga að stjórnvöld spari steinsteypu en við erum að tala um framfærslu fólks af holdi og blóði, fólks sem hefur beðið eftir leiðréttingu á kjörum árum saman sem eru í dag ekki bara langt undir lágmarkslaunum heldur langt undir atvinnuleysisbótum. Fatlað og langveikt fólk býr við afar erfiðan fjárhag í dag og ég sannast að segja var að vona að frekar yrði bætt í málaflokkinn þannig að þessi hópur sem hefur lægstar tekjur yrði lyft í launum.“