- Advertisement -

Átökin í Framsókn minna á baráttu Gunnars og Geirs

Ein af mögnuðust fréttaljósmyndum Íslandssögunnar.. Gunnar V. Andrésson tók myndina á því aungabliki sem Geir Hallgrímsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Allir risu úr sætum sínum, nema hjónin Gunnar og Vala Thoroddsen.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, var gestur í Svartfugli í gær. Talið barst meðal annars að átökunum um foyrstu í Framsóknarflokki.

Ólafur sagði þau minna sig á átökin sem voru á milli Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar í Sjálfstæðisflokki. Átök sem stóðu á annan áratug.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skrifaði merka bók um Gunnar Thoroddsen. Þar má meðal annnars lesa eftirfarandi:

„Eftir andlát Gunnars hafa margir þeirra sjálfstæðismanna, sem voru honum mótdrægir í stjórnmálabaráttunni, haldið fast við þá skoðun að Gunnar Thoroddsen hafi verið valdagírugur eiginhagsmunaseggur. Hans skyldi minnst sem „trúvillingsins“, sjálfstæðismannsins sem „sveik“ leiðtoga sína. Barátta minninganna hélt því áfram og þess sáust merki víða, einkum þó í Morgunblaðinu. Afstaða blaðsins var skýr: Frá því að Gunnar Thoroddsen sneri á ný til leiks í íslensk stjórnmál árið 1970 hefði hann reynst friðarspillir innan Sjálfstæðisflokksins og verst hefði framganga hans verið við stjórnarmyndunina 1980; þá hefði hann með undirferli spillt fyrir Geir Hallgrímssyni og svikið félaga sína. Á þann veg skyldi Gunnar dæmdur. „Býsnaveturinn“ mætti engum gleymast og skyldi vera víti til varnaðar.

Samtímis var orðstír Geirs Hallgrímssonar haldið á loft. Á síðum Morgunblaðsins var hann settur á stall með öðrum foringjum flokksins í seinni tíð, „hinn pólitíski arftaki Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins“. Engu hefði Geir Hallgrímsson valdið um það ósætti sem ríkti í flokknum og eftir ófarirnar í kosningunum 1978 hefði hann áttað sig á að Gunnar Thoroddsen hygðist ráðast til atlögu gegn honum.“

Það sem mestu skipti, hvað varðar átökin í Sjálfstæðisflokknum, var þegar varaformaðurinn Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn og varð forsætisráðherra. Þvert á vilja forystu flokksins, sem var þá í þeirri einkennilegu stöðu, einsog Ólafur minnti á í þættinum í gær, að varaformaður flokksins var forsætisráðherra en formaðurinn var leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

„Árið 1980 rættist lífsdraumur Gunnars Thoroddsens. Ríkisstjórn hans mistókst hins vegar að ná tökum á efnahagsmálum. Verðbólga geisaði og mældist yfir  100% um skamma hríð. Engu að síður er ósanngjarnt að bendla stjórn Gunnars eina við verðbólgufárið sem var landlægt á þessum árum. Stjórnmálamenn og leiðtogar launþegasamtaka höfðu lengi slegið á frest að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að takast á við þann vanda. Í raun má segja að hin illvíga víxlverkun hækkandi launa og verðlags hafi fyrst þurft að leiða til mikilla vandræða áður en valdhafar treystu sér til að taka á henni fyrir alvöru,“ segir einnig í bók Guðna Th. Jóhannessonar.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: