Óli Björn Kárason skrifar um orkupakkann, Sjálfstæðisflokkinn og átökin í vikulegri grein sinni í Mogganum.
Skoðum fyrst hvað hann segir um flokkinn og fætinginn:
„Öllum má vera ljóst að umræðan um þriðja orkupakkann hefur reynst Sjálfstæðisflokknum á margan hátt erfið. Það hefur verið deilt hart – á stundum með stóryrðum, villandi upplýsingum og staðhæfingum sem eiga enga stoð í raunveruleikanum. Þegar tekist er á af sannfæringu og eldmóði er ýmislegt sagt sem betur hefði verið látið ósagt.“
Óli Björn heldur áfram: „Við sem skipum þinglið Sjálfstæðisflokksins getum ekki kveinkað okkur undan gagnrýni flokksbræðra og -systra. Hún er eðlilegur hluti af starfi þingmannsins. Hann verður að hlusta og taka tillit til og skilja ólík sjónarmið. En þingmaður verður einnig að hafa burði til að svara og taka afstöðu til málefna. Sá sem feykist líkt og lauf í vindi og skiptir um skoðun til að geðjast síðasta viðmælanda skilur aldrei eftir sig önnur spor en þau sem fennir strax yfir.“
Nokkrum orðum ver hann til að tala um flokkinn og stöðu hans:
„Stjórnmálaflokkur sem þolir ekki átök hugmynda – hörð skoðanaskipti flokksmanna – mun fyrr eða síðar visna upp og glata tilgangi sínum. Slíkur flokkur getur aldrei orðið hreyfiafl framfara eða uppspretta nýrra hugmynda. Flokkur sem býr ekki til frjóan jarðveg fyrir samkeppni hugsjóna og skoðana, verður ekki til stórræða og á lítilfjörlegt erindi við framtíðina.“