„…hagi sér eins og „heimaríkir hundar“ og fari sínu fram…“
„Almannarómur hefur lengi sagt og í auknum mæli að embættismannakerfin í ráðuneytum leggi áherzlu á að „ná tökum“ á nýjum ráðherrum á nokkrum fyrstu mánuðum þeirra í embættum. Með því er átt við að kerfin ráði ferðinni en ekki hinir nýju ráðherrar sem þó eru kjörnir fulltrúar fólksins í landinu. Kannski eru nýjar kynslóðir stjórnmálamanna að átta sig betur á þessu. Alla vega hafa farið sögur af því undanfarna mánuði að í tíð núverandi ríkisstjórnar sé meira um átök á milli ráðherra og embættismanna þeirra en áður hafi þekkzt.“
Það er Styrmir Gunnarsson sem skrifar þetta í vikulegri grein sinni í Morgunblaðinu.
„Utan frá séð virðist orðið meira um það en áður var að háttsettir stjórnendur í ráðuneytum, sem lengi hafa setið í embættum, hagi sér eins og „heimaríkir hundar“ og fari sínu fram, hvað sem líður vilja ráðherra eða pólitískum hagsmunum. Og þar sé að finna skýringar á undarlegum ákvörðunum sem aftur og aftur virðast teknar í ráðuneytum. Dæmi eru um að embættismenn hafi gengið svo langt að reyna að vinda ofan af ákvörðunum þingnefnda sem þeim hafa ekki verið að skapi,“ skrifar Styrmir.
Rétt er að rifja upp Davíðs Oddssonar þegar hann sagði marga nýja ráðherra verða fljótt „húsvanir“ í ráðuneytunum. Það er embættismönnum takist fljótt að ná sínum tökum á ráðherrunum.
Styrmir heldur áfram: „Óánægja almennra borgara er orðin svo víðtæk af þessum sökum að sennilega mundi stjórnmálaflokkur, sem tileinkaði sér kjörorðið „báknið burt“, sem ungir sjálfstæðismenn tóku upp forðum daga, geta náð verulegum árangri í kosningum með því að ryðjast fram á hinum pólitíska vígvelli með þann gunnfána í fararbroddi.“
Svo kemur setning sem ég skil ekki hvað á að merkja: „Alla vega ætti forystusveit Sjálfstæðisflokksins að horfa vandlega til beggja átta og gæta að því, hvort Miðflokkurinn sé einhvers staðar í augsýn.“
Hver meiningin er erfitt að átta sig á.