- Advertisement -

Atlagan gegn EES

Ég stend hins vegar með EES fram í rauðan dauðann.

Össur Skarphéðinsson skrifar:

Það er rétt greining hjá leiðarahöfundi Fréttablaðsins að það sem vakir fyrir höfuðpaurum andstöðunnar við orkupakkaræfilinn er einkum að koma Íslandi úr EES. Margt af því liði sem nú heldur vöku fyrir þjóðinni með eilífu þrasi um það sem ekkert er, og kemur fullveldi landsins ekkert við, reyndi líka að nota „hráa kjötið“ til að veikja undirstöður EES-samningsins. Þar var þó málstaðurinn ívið skárri.

Að mestu leyti er þetta innflutt stefna frá Noregi þar sem einangrunarsinnar hafa náð að sameina jaðra þjóðernisíhalds og afturhaldssossa og gera úr hreyfingu gegn EES sem byggir að nokkru leyti á trúarhefð Norðmanna. Í hinni íslensku versjón sér liðsoddi öldungaráðsins, Styrmir Gunnarsson, glitta í íslenskan „Brexitflokk“ a la Farage sem gæti að lokum staðið yfir höfuðsvörðum hans gamla flokks. Þeim leiðangri lýsti hann giska vel í pistli fyrir nokkrum vikum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Styrmir á raunar lof skilið fyrir að hafa tekist að draga á flot með sér allnokkra jafnaldra sína úr löngu liðnu patríarkaveldi fjórflokksins. Sjálfur kallaði hann slíka meðreiðarsveina „nytsama sakleysingja“ þegar kommarnir plötuðu þá upp á vagn sinn í gamla daga – og uppúr skónum um leið. Litlu skiptir hins vegar úr hvaða átt „sakleysingjar“ Styrmis koma í dag. Leiðangrinum er fyrst og fremst stefnt gegn EES.

Þó leiðari Fréttablaðsins sé eldskarpur greinir mig þó í einu á við höfundinn. Ég hefði aldrei lagt í það að kalla valinkunna sómamenn úr hópi fyrrverandi stjórnmálamanna þeim nöfnum sem Kristín Þorsteinsdóttir velur þeim. Eða hverjum með fullu viti dytti í hug að kalla menn einsog Guðna Ágústsson, Jón Baldvin, eða Styrmi Gunnarsson „sviðsljóssfíkla“ eða „athyglissjúka pópúlista“?

Líkast til er það heimtufrekja að ætlast til að menn skilji hvenær þeir eru komnir framyfir síðasta söludag í pólitík, og leyfi öðrum að spreyta sig á því að stýra samfélaginu. Sjálfur er ég löngu runninn út á tíma og freistast sem betur fer aldrei til að tjá mig um stjórnmál nema á örmiðli þessum. Mér er sama hvort hann les einhver eða enginn. Kettirnir á Vestó gera það sjaldnast – en stundum dr. Árný.

Ég stend hins vegar með EES fram í rauðan dauðann – einsog Jón Baldvin og Sighvatur innrættu ungum þingflokksformanni Alþýðuflokksins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: