Greinar

Átján þúsund konur og stjórnarskráin

By Ritstjórn

June 14, 2021

Átján þúsund konur krefjast lögfestingar nýju stjórnarskrárinnar.

Félagar í Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá eru nú orðnar fleiri en átján þúsund og hefur þeim fjölgað um mörg þúsund á síðustu mánuðum. Þessi aukning er sterk ábending um vaxandi áhuga kvenna á setningar stjórnarskrá fyrir landið. 

Konur eins og aðrir í samfélaginu hafa fylgst með því hversu áhugalaus ríkisstjórn landsins er um endurskoðun stjórnarskrárinnar þrátt fyrir loforð um annað þegar hún var stofnuð. Samtökin telja þó enga ástæðu til að bíða eftir hugmyndum frá ríkisstjórninni um nýja stjórnarskrá enda er það ekki hlutverk hennar að setja landinu stjórnarskrá. Konur í samtökunum eru þess fullvissar að tillögur frá ríkisstjórn um nýja stjórnarskrá verði ekki annað en útþynntar málamiðlanir valdamikilla hagsmuna í samfélaginu. Að auki samdi sjórnlagaráð tillögu að stjórnarskrá 2011 sem landsmenn lýstu yfirgnæfandi stuðningi við í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012.

Það er hlutverk samtakanna, eins og flestir vita, að berjast fyrir lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar.

Tillögur stjórnlagaráðs frá 2011 einkennast af virðingu fyrir lýðræðinu. Staðið var að gerð tillagnanna með víðtækri og virkri þátttöku almennings. Nýja stjórnarskráin varð því til á lýðræðislegri hátt en áður hefur tíðkast hvert sem litið er.

Kraftur kvennafjöldans í samtökunum ryður nýju stjórnarskránni braut. Það er ekki spurning hvort nýja stjórnarskráin verði lögfest heldur hvenær.

Átján þúsund konur krefjast lögfestingar nýju stjórnarskrárinnar og þeim fer fjölgandi með hverjum deginum.