- Advertisement -

Athugasemdir við vinnulag undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa

Með þeirri leynd sem ríkir yfir störfum nefndarinnar er, að mati undirritaðra, komið í veg fyrir að andmælaréttur sé að fullu virkur.

Hótel Borgarnes og kjörgögnin.

Við undirrituð, öll kærendur vegna alþingiskosninga þann 25. september, viljum vekja athygli á því hversu mikil og ónauðsynleg leynd hvílir yfir fundum undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Nefndin hefur starfað í einn mánuð og haldið amk. 22 fundi. Einungis tveir af þessum fundum hafa verið opnir, hvor tveggja fundir með sérfræðingum frá lagadeildum háskólanna. Allir aðrir fundir hafa verið lokaðir og engar efnislegar upplýsingar að finna í fundargerðum. Fjölmargir hafa verið boðaðir til funda með nefndinni, þ.m.t. allir kærendurnir sextán og fjölmargir málsaðilar. Þar má helst telja meðlimi í landskjörstjórn, meðlimi yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, starfsmenn Hótel Borgarness, fjölmarga umboðsmenn stjórnmálasamtaka auk fleira fólks.

Við undirrituð vorum boðuð á fjarfund með undirbúningsnefndinni þann 25. október þar sem við gerðum grein fyrir kærum okkar og svöruðum spurningum nefndarmanna. Á fundinum komu fram nýjar upplýsingar þar sem brugðist var við svörum frá kjörstjórnum og einnig skorað á nefndina að kalla tiltekna einstaklinga á sinn fund sem gefið gætu nánari upplýsingar um tiltekin brot á lögum. Þar sem fundurinn var lokaður en tilkynnt um upptöku fórum við þess formlega á leit við formann nefndarinnar og ritara þann 28. október að upptakan yrði gerð opinber á vefsvæði nefndarinnar. Einnig var farið fram á að allir aðrir fundir nefndarinnar yrðu gerðir opinberir svo kærendum gæfist kostur á að fylgjast með framvindu málsins og grípa til andmælaréttar. Í gær, viku síðar, fengum við loks ítarlegt svar þar sem beiðni okkar um birtingu upptökunnar var hafnað, sjá meðfylgjandi bréf, liður 4.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ingi Tryggvason.

Líkt og Ragnhildur Helgadóttir prófessor sagði á opnum fundi með nefndinni þann 15. október er afar mikilvægt að gagnsæi verði haft að leiðarljósi í störfum nefndarinnar. Þetta er mikilvægt til að hægt sé að fylgja kærum eftir efnislega en einnig í þeim tilgangi að skapa þá ásýnd sem nauðsynleg er fyrir traust almennings á störfum Alþingis að þessu mikilvæga verkefni. Þá voru einnig gefin fyrirheit um að starfið yrði sem gagnsæjast og nefndarfundir opnir þegar hægt væri, sjá frétt frá 4. október: https://www.visir.is/g/20212165346d

Þar talar nýskipaður formaður nefndarinnar m.a. um vinnulag og tilhögun funda: „Við ræddum það og ég held að nefndarmenn séu svona að meginstefnu til á því að starfið eigi að vera sem gagnsæjast og nefndarfundir opnir þegar að hægt er.“ Og einnig: „Meðan að við erum að ná utan um verkefnið þá verðum við ekki með opna fundi en hins vegar þá sjáum við fyrir okkur að það geti komið til þess að því gefnu að við séum ekki að fjalla um mál sem að einhverjum ástæðum eru bundin trúnaði“.

Alþingi hefur staðfest að meginreglur stjórnsýsluréttar gildi um störf þeirrar nefndar sem nú rannsakar lögmæti nýaafstaðinna kosninga. Í slíkum meginregum felst réttur til andmæla en slíkur réttur er ekki raunverulegur nema kærendum sé gert kleift að nálgast allar upplýsingar og málsástæður sem fram hafa komið í málum. Með þeirri leynd sem ríkir yfir störfum nefndarinnar er, að mati undirritaðra, komið í veg fyrir að andmælaréttur sé að fullu virkur.

Við lýsum vonbrigðum okkar yfir því að starfi undirbúningsnefndarinnar sé haldið svo rækilega frá fjölmiðlum og vökulum augum kjósenda. Íslendingar þurfa svo sannarlega að geta treyst því og trúað að starf nefndarinnar sé unnið af heilindum og með heildarhagsmuni kjósenda í huga.

Reykjavík, 5. nóvember, 2021.

Sigurður Hreinn Sigurðsson

Katrín Oddsdóttir

Þorvaldur Gylfason

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: