Sprengisandur Löngum stundum hlusta ég á umræður frá Alþingi. Ég hef hugsað mér, en ekki komið í verk, að rifja upp ræður þeirra þingmanna sem voru á Alþingi fyrir fjórum árum, og bera þær ræðursaman við þær sem þeir nú flytja. Búa til fyrir og eftir, samanburð. Afstöðu sama fólks þegar það er í stjórn og svo þegar það var í stjórnarandstöðu, og öfugt. Ég veit af langri reynslu að þar er algjör kúvending. Sama fólk talar og talar þegar það er í stjórnarandstöðu og býsnast yfir nákvæmlega samskonar ræðuhöldum þegar það tilheyrir ríkisstjórn.
Ég ætla samt ekki að ræða þetta. Fyrir Alþingi er þannig komið að fjölmiðlar segja varla fréttir af bágri stöðu þess í huga fólks. Traust til þess er afar lítið og mælist lágt, svo ítrekað er þetta að það telst ekki til frétta, svo sjálfsagt er að þjóðin beri ekki traust til Alþingis, þess fyrirbæris sem á að vera helsta valdastofnun samfélagsins.
Hvað veldur? Ég veit það ekki. En eitt hefur stungið í mín augu síðustu daga. Það er yfirburða vanþekking og fordómar margra þingmanna þegar þeir ræða um starf einsog mitt og minna vinnufélaga. Þegar ég hlusta á þingmenn tala þannig hugsa ég með mér, kann að vera að þessir þingmenn tali af sama yfirlæti og geggjun um önnur störf, aðra atvinnvegi og flest í okkar samfélagi.
Því segi ég þetta? Hvað rekur mig til þess? Jú, þannig er að í þrasi þingsins er tekist á um Ríkisútvarpið og þingmaður eftir þingmann hefur ekki getu til, þegar hann vill verja Ríkisútvarpið, annað en tala aðra fjölmiðla og það fólk sem þar starfar niður. Þingmenn veigra sér ekki undan að sletta fram atvinnurógi í stórum stíl í vegferð sinni til að tryggja Ríkisútvarpinu áframhaldandi yfirburðastöðu umfram aðra fjölmiðla. Svo aumt er nú það.
Og hver eru áhrifin af þessu öllu? Jú, einstaka starfsmenn Ríkisútvarpsins kom fram á völlinn og tala á sama veg og þingheimur. Að í Efstaleiti sé allt mest og best og annað sé þjóðinni til óþurftar. Út í samfélaginu voru skrifaðar getgátur að fréttafólk 365 hafi haft það eitt meginmarkmið með einstakri og góðri þjónustu og fréttum af óveðrinu fyrir tæpri viku, að sýna sig fyrir þingheimi. Það hafi verið markmiðið. Ekki að færa fréttir, upplýsa fólk, sinna hllutverki sínu. Orðræða þingmanna er kannski áhrifameiri en halda mætti.
En hvað með Ríkisútvarpið? Já, hvað með það? Best er að hver tali fyrir sig. Ég sé ekki eftir að borga útvarpsgjald. Ég nota Ríkisúrtvarpið. Ég horfa á einstaka þætti, mikið á fréttir og ég hlusta stundum á Rás eitt. Ég vel Bylgjuna frekar en Rás 2. Mér þykir Bylgjan betri. Ég get rétt eins borgað nítján þúsund á ári einsog sextán þúsund í útvarpsgjald. Í mínum huga snýst þetta ekkert um það. Ég vil jafna leikinn, ekki bara milli Ríkisúrtvarpsins og 365. Líka við ÍNN, Hringbraut, N4, Skjáinn og útvarp Sögu. Og líka við prentmiðla og netmiðla. Ég vil að sem flestir geti framleitt fjölmiðlaefni.
Já, en hvað með Ríkisútvarpið? Já, þar vinnur margt afar hæft fólk sem ég svo sannarlega gæti hugsað mér að vinna með og líka fólk sem mig langar að vinna með. Ég vann þar fyrir nokkuð mörgum árum og fannst bara mikið til koma. Þar var metnaður til að gera vel, kraftur og heiðarleiki fyrir vinnubrögðum og allt það sem á að ætlast til af fólki sem segir og skrifar fréttir og annað efni.
En er það sérstaða? Nei, alls ekki. Á þeim þrjátíu árum sem ég hef starfað í fjölmiðlum hef ég ekki kynnst öðru og alls ekki þeim amlóðum sem þingmenn virðast halda að séu á öðrum fjölmiðlum en Ríkisútvarpinu. Alls ekki. Hvaðan þingmenn fá allar þessar hugmyndir um aumleika fjölmiðlamanna, annarra en þeirra sem starfa fyrir Ríkisútvarpið, veit ég ekki, en líklega er það sótt í þeirra eigin reynsluheim. Ef það er rétt, er staðan alvarlegri en við er unandi.
Hvers vegna treystir fólk ekki alþingi? Kann það að vera vegna þess að þingmenn, margir hverjir leyfa sér að tala með yfirlæti og yfirgripsmikilli vanþekkingu um menn og málefni? Getur verið að þeir leyfi sér svo auman málflutning gagnvart fleiri starfsstéttum en fjölmiðlafólki. Getur það verið? Gagnvart verkfræði, lækningu og hjúkrun, iðnaði, sjómennsku og útgerð, gegn menntun og menningu, landbúnaði, sveitarfélögum og svo áfram og áfram.
Þarf Ríkisútvarpið til að, til dæmis, halda uppi umræðu um samfélag og stjórnmál einsog sumir þingmenn segja? Þeim til upplýsinga hafa, það sem af er þessu ári, komið um 140 einstaklingar, bara í þennan þátt, á þessu ári. Örfáir þeirra hafa komið þrisvar, aðrir sjaldnar, enginn oftar. Hvað vantar á umræðuna? Telji þingmenn að Ríkisútvarp sé ómissandi þá er um leið óþarft að tala um aðra fjölmiðla sem óþurftar fyrirbæri.
(Flutt á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hægt er að hlusta hér).
Sigurjón M. Egilsson.