Fréttir

Ásmundur vill snyrtilegri þingmenn

By Miðjan

December 11, 2018

„Þegar maður er orðinn gamaldags finnst manni hefðir og formfesta skipta miklu máli. Ég hef velt því fyrir mér, frá því að ég kom inn í þingið, hvernig hafi staðið á því að á þinginu 2009–2013, einhvern tíma á því bili, hafi bindisskylda þingmanna í þingsalnum verið afnumin. Ég hef velt því fyrir mér hvort slík tilslökun verði ekki til þess að við förum að slaka á almennt í klæðnaði hér í þingsal,“ sagði Ásmundur Friðriksson, á Alþingi í dag.

Þá kallaði Helgi Hrafn: „Virðing þingsins.“

Ásmundur hélt áfram: Mér finnst klæðaburður skipta mjög miklu máli. En auðvitað eru skiptar skoðanir um það. Mér finnst það eðlilegt. Í þessari góðu bók (sem hann hélt á), Háttvirtur þingmaður, stendur:

„Löng hefð er fyrir formlegum og snyrtilegum klæðnaði þingmanna við þingstörfin, í þingsalnum og á fundum þingnefnda.“

Síðan sagði Ásmundur: „Ég held að þetta sé t.d. mjög illa brotið af okkur þingmönnum. Reglan hefur verið að karlmenn séu í jakka en meiri fjölbreytni hefur verið í klæðnaði kvenna. Ég held að þessi tilmæli hér innihaldi það ekki að við klæðumst ekki gallabuxum í þingsalnum sem mér finnst afar óviðeigandi. Ég legg til, svo að við förum ekki öll í jólaköttinn, að við tökum okkur taki og hugum að klæðnaði í þingsal, að við komum þannig hingað inn að það sjáist að við berum virðingu fyrir þeirri sögu sem tilheyrir þessu húsi og virðingu fyrir því starfi sem við erum að sinna og að við sýnum það með framkomu okkar og klæðnaði að við séum á háttvirtu Alþingi.“