Ásmundur vildi verða bílaleiga
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sótti um til Alþingis að hann fengi að vera bílaleiga samhliða þingstörfum. Erindi Ásmundar var hafnað.
Ásmundur er mjög ósáttur við þær reglur sem Alþingi ákvað um notkun þingmanna á eigin bílum og hvenær þeim ber að ferðast um á eigin bílum. Ásmundur finnur mjög að því að reglurnar voru hvorki bornar undir hann né nokkurn annan þingmann, það er best hann veit.
Ásmundur vill ekki ferðast í bílaleigubílum. Segir þá ekki samboðna sér. Hann eigi betra skilið en útkeyrða og illa farna bílaleigubíla. Góðir bílaleigubílar standi þingmönnum ekki til boða.
Ásmundur Friðriksson hefur ratað í mikinn vanda. Þingmenn, flestir hverjir, munu verja Ásmund. Þeir eru einsog dóminóskubbar. Falli einn, falla allir. Þó Ásmundur hafi sýnt meira óhóf en aðrir er þar aðeins um stigsmun að ræða. Margir þingmenn hafa skilið eftir fingraför sín og vita upp á sig skömmina, eða sektina kannski öllu heldur.
Ásmundur og aðrir þingmenn munu skrifa næsta kafla í þessu ótrúlegu sögu.
-sme