Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki sagði á Alþingi í gær að frá árinu 2014 hafi þeim einstaklingum fjölgað sem fá lyfjameðferð við ópíóðafíkn á Vogi, úr 117 einstaklingum í 347 á síðasta ári, en á sama tíma yfir þetta tímabil, þessi níu ár, greiðir ríkið aðeins fyrir meðferð 90 einstaklinga. Það er alveg sama hvað er að gerast, það er engin hækkun. Það er alveg með ólíkindum, virðulegur forseti, að á sama tíma og þetta er að gerast í okkar samfélagi þá fjölgar tillögum hér í þessum sal um að auka aðgengi að víni og fíkniefnum. En það koma engar tillögur um það hvernig við ætlum að mæta þeim áföllum sem samfélagið og einstaklingarnir verða fyrir. Dauðsföllum einstaklinga sem hafa dvalið á Vogi á undanförnum árum hefur fjölgað gríðarlega. Árið 2017 létust 75 einstaklingar sem höfðu dvalið á Vogi. Þar af voru 12 yngri en þrítugir. Í ár er gert ráð fyrir að þessi tala verði 139 einstaklingar, þar af verði 24 undir 30 ára.“
„Það eru mikil verðmæti í hverjum einstaklingi. Það er mikilvægt fyrir okkar samfélag að mæta þessari ógn með því að styðja við bakið á þeim fyrirtækjum og stofnunum sem eru að reyna að bjarga þessu fólki úr heljargreipum fíknarinnar,“ sagði Ásmundur Friðriksson og sendi tóninn til eigin flokkssystkina.