Ásmundur segist ekki komast að
„Það eru nokkur ár frá því að Ríkisútvarpið og aðrir fjölmiðlar á vinstri vængnum „slaufuðu“ mér vegna umræðu um hælisleitendur. Það gerðu auðvitað fleiri og er ég enn minntur á yfirlýsingar sumra flokksfélaga minna af sama tilefni. Þetta gerðist í kjölfar varnaðarorða minna um óhefta fjölgun hælisleitenda í landinu. Þrátt fyrir það var fjöldi þeirra á þeim tíma líklega um þriðjungur þess sem síðar varð. Hann er löngu orðinn óviðráðanlegur fyrir lítið samfélag á Íslandi. Á þeim tíma kallaði ég eftir því að bakgrunnsskoðun færi fram á þeim sem hingað kæmu og að við gættum ýtrustu varna við landamæri landsins,“ segir í nýrri Moggagrein eftir Ásmund Friðriksson þingmann.
„Það var og er vitað að til landsins streyma skipulagðir hópar undir merkjum hælisleitenda til að stunda hér mansal og aðra skipulagða brotastarfsemi. Þrátt fyrir viðleitni til að efla landamæraeftirlit og löggæslu dugar það hvergi nærri til. Lögreglan er hundelt í störfum sínum þegar koma á fólki úr landi sem hefur fengið synjun á hælisumsókn á öllum stigum, jafnvel fyrir dómstólum. Þar ganga fremstir í fylkingu vinstrisinnaðir fjölmiðlar, píratar allra flokka og öfgamenn á vinstri vængnum,“ skrifar Ásmundur.
Síðar í greininni stendur:
„Þetta er fólkið sem er í liði með Reykjavíkurborg sem skýtur skjólshúsi yfir og sendir einkennileg skilaboð til þjóðarinnar um vanvirðingu við Austurvöll og nágrenni hans. Austurvöll sem geymir styttuna af Jóni forseta, Dómkirkjuna og Alþingishúsið. Hér má ekki gleyma þætti vinstrisinnaðra fjölmiðla sem flytja daglegar fréttir úr búðunum á Austurvelli, en birta ekki upplýsingar um einstaklinga sem þar halda til. Er þeim þó í lófa lagið að afla sér slíkra upplýsinga.
Ríkisútvarpið og aðrir vinstrisinnaðir fjölmiðlar stjórna umræðunni í landinu. Meðal annars með því að slaufa einstaklingum sem ekki eru í náðinni en hafa frá upphafi kallað eftir vandaðri vinnubrögðum og varkárni í útlendingamálum. Á dögunum var hælisleitanda, sem er talinn vera liðsmaður ÍSIS, vísað úr landi. Ábyrgð fjölmiðla er mikil nú þegar raunveruleikinn kemur aftan að okkur. Vonandi líta þeir til nágrannalanda okkar og láta af þöggun og ófrægingarherferðum í garð þeirra sem er sannarlega annt um íslenskt samfélag. Vonandi er það ekki um seinan,“ skrifaði Ásmundur.
Ég hef boðið Ásmundi í viðtal á Samstöðinni á morgun. Bíð eftir svari.