- Advertisement -

Ásmundur sakar Helgu Völu um endurtekin rangindi

Þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir er yfirleitt ekki lengi að snúa staðreyndum á hvolf enda ekki alltaf samferða sannleikanum. Í síendurteknum tilraunum til að fella pólitískar keilur er fátt heilagt. 

Í umræðum á þingi um kjör eldri borgara og öryrkja í dag tók hún enn eina ferðina fram skrökvuskjóðuna. Eins og lesa má af ræðum okkar Vilhjálms Árnasonar tókum við undir með Guðmundi Inga Kristinssyni sem átti frumkvæði að umræðunni. Við Vilhjálmur lögðum báðir sérstaka áherslu á að bæta kjör þeirra sem lökust hafa kjörin. Helga Vala Helgadóttir fór í ræðustól og afbakaði og skrökvaði upp á okkur skoðunum og fór með hreinar rangfærslur. Eðli málsins samkvæmt tökumst við á í þingsal en það er eitt að skylmast við andstæðinga og annað að þurfa að sitja undir rugli og hreinum ósannindum þingmanns.

Læt ræður okkar Vilhjálms fylgja og niðurlag úr ræðu HVH.

Ræða mín. Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni, fyrir umræðuna. Hann er óþreytandi við að ræða málefni eldri borgara og öryrkja og við erum nær alltaf sammála í þeim efnum. Mér fannst hann koma með mikilvægan punkt sem við höfum kannski ekki alveg verið sammála um, en hér kom hann með dæmi um einstakling sem fær 1 milljón í lífeyrisgreiðslur en fær samt sem áður 125.000 kr. frá Tryggingastofnun. Ég fékk aðstoð í tölvunni og þetta dæmi er hárrétt eins og hann leggur það fram. Þetta er auðvitað ekki í neinu samræmi við það sem við höfum verið að tala um í þessum sal, að þeir sem hafa háan lífeyri fái líka bætur frá Tryggingastofnun.
Virðulegi forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að þessar reglur verði endurskoðaðar. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég heyri líka að ákveðnir þjóðfélagsþegnar sem geta t.d. verið með mjög há laun geta nýtt séreignarsparnað fyrstu árin þegar þeir komast á lífeyri og fengið þannig líka fullar bætur frá Tryggingastofnun. Það er ekki kerfi sem við erum að hugsa um. Það er ekki kerfi sem við höfum talað um að verja. Ég tek þess vegna undir með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni að þetta er verk sem þarf að fara í. Við erum að tala um að reyna að hafa kerfið réttlátt. Margir fá allt of lágar bætur eins og hér kom fram og ég held að það sé verk að vinna að færa þá háu bótaeinstaklinga og færa tekjur þeirra til þeirra sem minna hafa. Það er verkefnið fram undan, við erum sammála um það og ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu ótrúlega máli í ræðu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ræða Vilhjálms Árnasonar; Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa mikilvægu og fjölbreyttu umræðu. Það er margt sem þarf að ræða í henni. Við erum öll sammála um að við viljum gera vel við þá hópa sem eru hér til umræðu, eldri borgara og öryrkja, þó að deila megi um hvort eigi að ræða þá tvo hópa alltaf saman og blanda þeim saman, eins ólíkir og þeir eru á margan hátt.
Ég tek undir að það liggur mikið á að gera breytingar varðandi skerðingarnar hjá öryrkjum eins og hefur verið gert hjá eldri borgurum. Vonandi tekst okkur að klára það hið fyrsta og það er mjög mikilvægt. Það er líka mikilvægt að hvorugt þessara kerfa sé byggt þannig upp að fólk sé fest í einhvers konar fátæktargildru. Við erum öll sammála um þetta, að við viljum draga úr skerðingunum. Við viljum hjálpa þeim sem á því þurfa að halda. Þess vegna þurfum við að hafa það svolítið á hreinu hvað þær aðgerðir sem við förum í þýða. Ég tel ekki til mikils að vinna að fara í aðgerðir sem greiða fjármuni úr almannatryggingum, úr ríkissjóði, skattfé almennings, til fólks sem hefur næga framfærslu í dag á meðan til er fólk sem hefur ekki næga framfærslu.
Við þurfum að stilla okkar aðgerðir af þannig að við hjálpum þeim sem þurfa aukna framfærslu, að við borgum ekki úr ríkissjóði til fólks sem hefur nægt fjármagn á milli handanna. Þetta þurfum við að hafa algjörlega kýrskýrt. Ég tek alveg undir mikilvægi þess að leyfa fólki að vinna og þess vegna erum við búin að setja inn frítekjumark og lækka skerðingarnar úr 100% niður í 45%. Þar þurfum við að halda áfram og það gerum við ekki nema með aukinni verðmætasköpun í samfélaginu. Þetta þarf að fylgjast að og það er hægt að nota þessa mælikvarða á mörgum öðrum stöðum líka (Forseti hringir.) en þannig bara virka því miður ekki fjárlög ríkisins.

Niðurlag ræðu Helgu Völu ; Að lokum vil ég líka segja að það er alveg merkilegt að hlusta á orð hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem virðast hafa mestar áhyggjur af þeim hópi sem hefur nóg. Þeir hafa komið hérna tveir og hafa sérstaklega (ÁsF: Þetta er rangt.) talað um þá hópa sem hafa nóg milli handanna (ÁsF: Þetta er rangt. Þetta er …) og að þeir eigi … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)
(Forseti (SJS): Gefið ræðumanni hljóð. Ekki frammíköll.)
Þakka þér fyrir, herra forseti.
— Að lokum vil ég segja að það var alveg merkilegt að hlusta á orð hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem komið hafa hingað og virst hafa mestar áhyggjur af þeim sem hafa nóg á milli handanna á meðan við hin erum kannski meira að horfa á þá sem ekki hafa til hnífs og skeiðar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)
Fyrirgefðu, herra forseti. Þetta er eiginlega ekki hægt. (Forseti hringir.)
(Forseti (SJS): Forseti vill ekki frammíköll og allra síst orðbragð af þessu tagi. En ræðutíma ræðumanns er lokið.)
Já, en ég verð að fá að klára ræðuna, hún var mjög vel tímasett. (Forseti hringir.)
(Forseti (SJS): Hv. þingmaður er komin hálfa mínútu fram úr.)
Já, það er af því að annar ræðumaður tók tíma þeirrar sem hér stendur. Já, þær eru misjafnar áhyggjur fólksins hér á Alþingi. Við í Samfylkingunni höfum frekar áhyggjur af þeim sem ekki eiga til hnífs og skeiðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: