Leiðari Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fær athugasemdalaust greiddar vel yfir þrjú hundruð þúsund krónur að meðaltali hvern mánuð fyrir akstur á eigin bíl. Þetta er allt hreint út sagt ótrúlegt.
Sjálftaka Ásmundar á opinberum peningum má ekki halda áfram. Þingmönnum er treyst til að rukka þingið fyrir akstur sem tilheyrir starfi þeirra. Frelsi þeirra til þess hefur verið takmarkalaust. Ofgnótt Ásmundar mun verða til þess að skrúfað verður fyrir sjálftökukranann. Annað kemur ekki til greina.
Það er nánast dónalegt af Ásmundi að segja að fólk geti lesið Facebooksíðu hans þar sem hann segir frá flestum ferðum sínum og hvaða fólk hann hittir í hvert og eitt sinn. Sérstaða Ásmundar í akstrinum er mögnuð og með öllu er óvíst, og reyndar ólíklegt, að hann sé betri þingmaður akstursins vegna.
Ásmundur Friðriksson verður að hafa frumkvæði og sýna okkur hvernig hann hefur mætt á þingfundi og nefndarfundi. Hefur hann náð að sinna starfi sínu þrátt fyrir allan aksturinn?
Ásmundur Friðriksson verður að gera grein fyrir hvers vegna hann þarf að ferðast um meira en aðrir þingmenn. Ásmundur Friðriksson verður að sýna fram á að þjóðin, sem er hans vinnuveitandi, hafi haft gagn af öllum þeim peningum sem hann hefur tekið úr sameiginlegi sjóði okkar landsmanna.
Sigurjón M. Egilsson.