Heldur þingmaðurinn virkilega, að Ísland sé einangrað frá umheiminum og enginn viti hvað er að gerast á landinu?
Marinó G. Njálsson skrifar á Facebook:
Enn og einu sinni vekja orð Brynjars Níelssonar furðu. Hvernig getur maður verið uppljóstrari sem greinir frá atvikum sem eru opinber? Heldur þingmaðurinn virkilega, að Ísland sé einangrað frá umheiminum og enginn viti hvað er að gerast á landinu? Uppljóstrari er sá sem greinir frá atburðum sem hafa farið leynt og eru almennt brot á lögum. Þess vegna eru Ed Snowden, Chelsea Manning og Jóhannes Stefánsson uppljóstrarar. Þau greindu frá atriðum, sem eingöngu var á fárra vitorði og flokkast undir lögbrot. Litli símamaðurinn var líka uppljóstrari.
Ásmundur Friðriksson var ekki að uppljóstra neinu. Hann var að greina frá atriðum sem fjallað hafði verið nokkuð ítarlega um í fjölmiðlum og á þingi. Engin leynd var yfir því að siðnefnd Alþingi hafði talið ummæli Þórhildar Sunnu hafa verið brot á siðareglum Alþingis. Hvernig siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu er hins vegar flestu þenkjandi fólki óskiljanlegt, þar sem Ásmundur Friðriksson hafði viðurkennt að hafa gengið of langt í því að krefja Alþingi um endurgreiðslu á aksturkostnaði og ákvað í framhaldi að endurgreiða hluta endurgreiðslunnar.
Þórhildur Sunna hafði auk þess þegar gert forseta Evrópuráðsþingsins frá áliti siðanefndarinnar, þannig að hún hafði komið hreint fram. Það er talsvert mikið annað, en Ásmundur Friðriksson getur sagt.