- Advertisement -

Ásmundur Einar, hrakinn suður?

Ásmundur Einar Daðason mun ekki fara aftur í framboð í Norðvesturkjördæmi. En hvers vegna? Hvers vegna fer hann úr skjólinu út á berangur?

Gunnar Bragi Sveinsson, sem áður var í stöðu Ásmundar Einars, sagði þegar hann tók ákvörðun um að hætta í Framsókn og ganga til liðs við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og nýstofnaðan Miðflokk:

„Nú er svo komið að hreinlyndið er á undanhaldi í flokknum mínum. Einhver annarleg öfl virðast hafa tekið forystu í flokknum, öfl sem ég hef líklega ekki verið nógu undirgefinn. Kafbátahernaður er stundaður.“

Framsókn fékk síðar þrjá ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Gunnar Bragi sagði að formaður og varaformaður hafi fengið ráðherrasæti og svo fulltrúi flokkseigenda. Gunnar Bragi varð óvinsæll meðal þeirra sem mestu ráða. Ekki síst, þá sem utanríkisráðherra, vegna viðskiptabanns á Rússlandi.

Gunnar Bragi Sveinsson og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Hefndin kom. Hann var hrakinn burt. Nú er Sauðkrækingurinn, Stefán Vagn Stefánsson, á þing. Hann hefur fengið blessun heima fyrir. Þá er spurt, er Ásmundi Einari ýtt úr skjólinu, rétt eins og Gunnari Braga forðum?

Meira frá Gunnari Braga þegar hann fór úr Framsókn:

„Það er kannski ekkert nýtt en þegar að menn sem ég hef hingað til talið hreinskiptinna vina minna eru farnir að grafa undan persónu manns þá staldrar maður við. Menn sem ekki þora að horfa í augun á manni og segja „Ég held það sé kominn tími að þú dragir þig í hlé“ en kjósa þess í stað að grafa undan fólki eiga ekki traust skilið. Verst þykir mér að þessi óheilindi eru leidd af fólki í trúnaðarstöðum fyrir flokkinn í minni heimabyggð og einstaklingum sem telja sig eiga að ráða framvindu mála.

Menn geta borið titla, skreytt sig borðum á hátíðisstundum, vígt hús eða sjósett skip en það gerir þá ekki að traustum eða merkilegum mönnum.

Framsóknarfélagið mitt er klofið og ég sé að fólki er skipt í fylkingar. Gamla góða vinalega kveðjan er í sumum tilfellum orðin í besta falli kurteisisleg. Þetta á ekki að vera svona, þetta þarf ekki að vera svona. Öllu þessu mátti forða hefðu menn hlustað eða komið hreint fram. Því miður er það nú að rætast sem ég og fleiri vöruðum við og ég sagði við marga vini mína síðla sumars 2016 í upphafi innanflokksátakanna.“

Halla Signý Kristjánsdóttir, sem skipað hefur annað sæti lista Framsóknar í Norðvestri, mun væntanlega vera áfram í því sæti.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: