Í dag sneri Landsréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns einstaklingssviðs Orku náttúrunnar (ON), gegn fyrirtækinu; Áslaug fagnar því sigri í dag, en uppsögn úr starfi millistjórnanda hjá OR fyrir fjórum árum hefur verið dæmd ólögleg.
Málið snerist um það hvort uppsögn Áslaugar hefði grundvallast á kvörtun Áslaugar undan næsta yfirmanni hennar, Bjarna Má Júlíussyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra ON, en ON byggði málið á því að uppsögn Áslaugar ætti rætur að rekja til þess Áslaug hefði ekki staðið undir væntingum sem starfsmaður.
Áslaug segir frá málinu og niðurstöðu þess í Facebook-færslu.
„Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem ég höfðaði á hendur fyrrverandi vinnuveitanda mínum, Orkuveitu Reykjavíkur. Forsaga málsins er sú að mér var fyrirvaralaust sagt upp störfum í september 2018 eftir að ég hafði ítrekað kvartað undan framkomu framkvæmdastjórans sem var minn næsti yfirmaður. Það var hann sem sagði mér upp og vildi helst fylgja mér beint út úr húsi.“
Áslaug nefnir líka að „í kjölfarið leitaði ég til stjórnarformanns fyrirtækisins þar sem ég gerði honum grein fyrir ítrekuðum kvörtunum mínum. Daginn eftir okkar fund, þremur dögum eftir mína uppsögn, var framkvæmdastjórinn rekinn. Sú uppsögn var sögð vera vegna framkomu hans við samstarfsfólk, en þó var það látið fylgja að mitt mál og hans uppsögn tengdust ekki.“
Hún segir að „það sem á eftir fylgdi var ótrúleg framganga vinnuveitandans, Orkuveitu Reykjavíkur, í minn garð með stuðningi eða í það minnsta þegjandi samþykki ráðandi afla í eigendahópi fyrirtækisins; ég var opinberlega smánuð á blaðamannafundi sem vinnuveitandinn boðaði til; jafnframt vorum við hjónin sökuð um tilraunir til fjárkúgunar í öllum fréttamiðlum landsins fyrir það eitt að reyna að leita eftir réttlátri málsmeðferð. Hér er um að ræða tímamótaaðför vinnuveitanda á hendur starfsmanni sem vonandi hefur hvorki sést fyrr né síðar.
Í eftirá skýringum og málsvörn sinni hefur vinnuveitandinn borið því við að hafa ætlað að segja mér upp fyrst í maí árið 2018. Hvílík tilviljun að það var einmitt í maí 2018 sem sami vinnuveitandi hækkaði launin mín! Þetta er aðeins ein af fjölmörgum þversögnum í eftirá skýringum vinnuveitandans sem þola illa að vera bornar upp að ljósinu.“
Áslaug fagnar því sigri, en greinilegt er að málið hefur tekið mikið á hana.
„Nú hefur fallið dómur mér vil í þessu máli eftir næstum fjögurra ára baráttu. Ég vildi óska þess að þessum tíma ævi minnar hefði verið varið í eitthvað uppbyggilegra. En ég er þakklát fyrir að þessu máli er nú lokið og ég þakka öllum þeim sem sýndu mér vinarþel og stuðning í baráttunni fyrir réttlæti.“