„Aðildin að EES-samstarfinu er líklega eitt mesta gæfuspor sem Ísland hefur tekið.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ritari flokksins, sér ástæðu til að skrifa grein til varnar EES og þátttöku okkar í samstarfinu. Draga má þá ályktun að hún óttist vaxandi vilja innan flokksins til að klippa á samstarfið innan EES.
Grein sína byrjar Áslaug Arna svona:
„Aðildin að EES-samstarfinu er líklega eitt mesta gæfuspor sem Ísland hefur tekið á seinni árum.“ Hér er talað hreint og skýrt.
„Að undanförnu hefur skapast umræða um veru okkar í EES-samstarfinu, sem er í raun umræða um þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi,“ skrifar hún síðar í greininni.
„Þessi umræða hefur ekki verið tekin í talsverðan tíma hér á landi. Mögulega er það vegna þess að þeir sem eru í það minnsta undir fertugu þekkja lítið annað en að njóta þeirra kosta og lífsgæða sem EES-samningurinn færir okkur. Þau þekkja tækifærin til að mennta sig erlendis, búa þar og starfa, lífsgæðin sem fylgja því að geta stundað frjáls viðskipti milli landa og telja það í raun sjálfsagðan hlut.“
Áslaug Arna er ekki í neinum vafa um hvað hún vill:
„Ákvörðunin um að gerast aðili að EES-samstarfi var tekin af stjórnvöldum sem þá voru þess fullviss að aukin tenging okkar við umheiminn væri til hins góða. Menn vissu og trúðu því að aukin viðskipti milli landa myndu færa okkur aukna hagsæld, að það væru tækifæri fólgin í því að geta menntað sig og starfað erlendis, að fá hingað til lands fólk til starfa og að flytja fjármagn óheft á milli landa. Ávinningurinn af þessari framtíðarsýn um öflugra og betra samfélag er ótvíræður og það er ljóst að lífskjör á Íslandi væru lakari fyrir alla landsmenn ef við værum ekki hluti af EES-samstarfinu.“