„…hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í stórum dráttum orðið okkur til góðs.“
Einn harðasti andstæðingur þriðja orkupakkans er Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður, menntamálaráðherra og sendiherra. Að venju stendur hann sterkt við hlið Davíðs Oddssonar. Tómas Ingi hefur skrifað greinar í Moggann þar sem hann berst gegn innleiðingunni.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar sneiddi að Tómasi Inga í framsöguræðu sinni um orkupakkann. Í ræðu sagði hún á einum stað:
„Í þessu sambandi má rifja upp orð Tómasar Inga Olrichs á Alþingi 4. maí árið 2000, þegar til umfjöllunar var aflétting stjórnskipulegs fyrirvara við innleiðingu fyrsta orkupakkans, en hann sagði, með leyfi forseta:
„[Ekki er] loku fyrir það skotið að hér geti orðið raunhæf samkeppni um framleiðslu og sölu á raforku. En hér hlýtur að gilda það sama og í Evrópu, að til þess að slík samkeppni komist á er afar mikilvægt að menn hafi jafnan aðgang að flutningakerfunum. Yfirleitt er í þessum reglum um samkeppni á orkumarkaði gengið mjög tryggilega frá því að fyrirtækin sem annast framleiðslu og sölu á orku geti ekki einokað flutningakerfin. Ég get vel fallist á að hér er um mikilvægt mál að ræða. Ég er hins vegar ekki sammála því að þarna sé um hættulegt mál að ræða. Þetta er hluti af því samkeppnislandslagi sem verið er að leiða okkur inn í síðan við gengum í hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í stórum dráttum orðið okkur til góðs.““
Í dag er annað mjöl í pokahorni Tómasar Inga. Áslaug Arna valdi að benda á þá staðreynd í ræðu sinni.