Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skaut ekki síst á sinn eigin formann og fjármála- og efnahagsráðherra þegar hún talaði á Alþingi í gærkvöld. Hún sagði ti dæmis: „Við í Sjálfstæðisflokknum viljum ekki hækka skatta. Þess í stað á ríkið að fara betur með fjármuni, sýna meira aðhald í ríkisrekstri en nú er gert.“ Að fara betur með peninga og ekki hækka skattar. Nú er eflaust kátt í Valhöll.
Áslaug Arna á Alþingi:
„Ríkisstjórnin er að huga sérstaklega að þeim heimilum sem lakast standa, samhliða öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir að við festumst í vítahring verðbólgu og vaxtahækkana. En það er kallað eftir frekari aðgerðum. Það er eðlilegt og við erum að og munum grípa til þeirra. Það er samt vert að hafa í huga að svörin leynast ekki í skammtímahugsun og örvæntingarfullum afskiptum hins opinbera. Ég ætla að fá að taka tvö dæmi:
Skattahækkanir. Þau eru til sem trúa því að stjórnvöld geti valið sér feita og stóra bita af hlaðborði skattahækkana. Þetta er mantra stjórnmálamanna sem telja sig geta mætt erfiðum áskorunum í efnahagsmálum með annarra manna peningum í landi þar sem skattar eru nú þegar mjög háir. Kallað er eftir því að við skattleggjum breiðu bökin. En við höfum séð afleiðingar þess þegar t.d. eignaskatturinn lagðist þungt á herðar eldra fólks sem neyddist til að selja heimili sín. Skattahækkanir bitna líka alltaf á dugnaði og frumkvæði fjölskyldufólks. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum ekki hækka skatta. Þess í stað á ríkið að fara betur með fjármuni, sýna meira aðhald í ríkisrekstri en nú er gert. Við eigum og erum að nýta kosti nýsköpunar sem er skilvirkasta leiðin til betri og hagkvæmari ríkisrekstrar og heilbrigðisþjónustu því að við erum stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi sem getur orðið miklu betra án skattahækkana.“