Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar grein í Moggann um húsnæðismál. Hún kemur víða við. Meðal annars skrifar hún um leigumarkaðinn. Hér á Miðjunni var fyrir fáum dögum sagt frá konu sem fær 250 þúsund krónur útborgaðar og borgar 240 þúsund í húsaleigu.
Katrín Jakobsdóttir segir að áskoranir blasi við ríkisstjórninni. Konan, sem skrifað var um, sér ekki fram á áskoranir. Við henni blasir neyð alla daga og allar nætur.
Katrín skrifaði:
„Þegar litið er til leigumarkaðarins blasa við okkur áskoranir. Leiguverð hefur haldið áfram að hækka umfram verðlag, árshækkun á höfuðborgarsvæðinu var 5,2% á meðan verðlag hækkaði um 3%. Engin breyting hefur orðið á hlutfalli leigjenda sem telja ólíklegt að þeir muni kaupa sér fasteign (92%) þó að nú séu vextir í sögulegu lágmarki. Hægt er að draga ýmsar ályktanir af því en ein af þeim hlýtur að vera að ótryggt ástand á leigumarkaði undanfarin ár ásamt miklum hækkunum á leiguverði skapi slíkt umhverfi að fólk sjái leiguhúsnæði ekki sem færan kost til framtíðar. Hér skiptir uppbygging félagslegs íbúðakerfis miklu máli þannig að fleiri geti nýtt sér langtímaleiguhúsnæði með sanngjarnri leigu. Einnig bind ég vonir við að þegar aðgerðir sem kynntar voru í vor til að greiða leið ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn hafa verið útfærðar og komnar til framkvæmda verði það til þess að bæta þessa stöðu.“