„Samtök atvinnulífsins gagnrýna ASÍ fyrir að gefa ekki eftir kauphækkanir og lífeyrisréttindi við ríkjandi aðstæður og bera saman við stöðuna eftir hrunið 2008. Það er bæði rangt og villandi. Það hefur aldrei staðið á samninganefnd ASÍ að eiga samtal við atvinnurekendur og stjórnvöld um sameiginlegar lausnir. Þeir afarkostir sem Samtök atvinnulífsins stilltu upp gagnvart samninganefnd ASÍ var hins vegar hafnað af miklum meirihluta nefndarinnar eftir breitt samráð við bakland innan verkalýðshreyfingarinnar. Ábyrgðina er ekki hægt að setja á launafólk sem nú þegar hefur orðið fyrir miklum búsifjum. Alþýðusamband Íslands mun standa vörð um þær vinnumarkaðsaðgerðir sem ákveðnar hafa verið og gerir sömu kröfur til atvinnurekenda og samtaka þeirra,“ segir í ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins frá því gær.
Í framhaldi af þessu sögðu þrír miðstjórnarmenn sig frá frekari þátttöku í starfi ASÍ, þau Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson og Harpa Sævarsdóttir.
„Sterk verkalýðshreyfing er mikilvæg á öllum tímum en aldrei eins og í kreppu. Þá reynir á samstöðu og skýra sýn. Á slíkum stundum er mikilvægt að sjá heildarmyndina. Verja réttindi og kjör og standa dyggan vörð um velferðarkerfið. Við erum sterkari saman,“ segir svo í ályktun miðstjórnar ASÍ.