Ef eitthvert afl í samfélaginu á að móta stefnu, uppúr kreppu og til framtíðar þá er það verkalýðshreyfingin.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Eina rétta leiðin út úr kreppunni og áfram til framtíðar er í aðalatriðum það sem fram kemur í einni setningu í nýja bæklingi ASÍ eða: „Hreyfingin gerir kröfu um að vera beinn þátttakandi í öllum ákvörðunum sem hafa áhrif á vinnumarkað og sem varða framtíð og afkomu launafólks.“ Þetta er aðalmálið! Ef þetta er ekki formbundið og kýrskýrt þá er staða verkalýðshreyfingarinnar svo veik. Bara eins og hefur verið undanfarna áratugi.
Næsta setningin í bæklingnum er óþörf þar sem þar er strax farið vörn eftir ákall um sókn eða setningin: „Innan verkalýðshreyfingarinnar býr þekkingin á atvinnulífi landsins, þar á meðal á staðbundnum þáttum.“ Liggur þetta ekki fyrir. Er það ekki augljóst að hreyfing með hátt í 200 þúsund launamenn innanborðs búi yfir slíkri þekkingu? Það er ótrúlegt hvað hreyfingin hefur ennþá veika sjálfsmynd. Því þarf að breyta og það strax. Ef eitthvert afl í samfélaginu á að móta stefnu, uppúr kreppu og til framtíðar þá er það verkalýðshreyfingin. Hún á að vera sá áttaviti sem stjórnvöld fylgja við alla stefnumótun!