NEYTENDUR „Heimsmarkaðsverð á hrávörum s.s. hveiti og kaffi hefur lækkað frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Heimsmarkaðsverð á hveiti hefur lækkað um 20% og á kaffi um 17-19%. Á sama tíma hefur gengið verið að styrkjast; gengisvísitalan um 7,6%, evran um 4,6% og dollarinn um 3,8%.“
Þetta kemur fram á heimasíðu ASÍ.
„Það vekur því athygli að samkvæmt verðkönnunum Verðlagseftirlits ASÍ er algengasta lækkun á hveiti á þessu tímabili einungis 1-4% og á kaffi um 3-7%. Svipaða sögu má lesa úr mælingum Hagstofu Íslands en samkvæmt vísitölu neysluverðs þá lækkaði verð á liðnum hveiti og mjöli um 3,8% frá febrúar 2015 og verð á kaffi um 1,9%.
Þegar þessar niðurstöður eru skoðaðar hlýtur sú spurning að vakana hvort að þetta geti talist eðlilegt? Verslunin í landinu verður að svara því hvers vegna verð til neytenda hefur ekki lækkað meira en raun ber vitni, þegar saman fer styrking krónunnar og veruleg lækkun á heimsmarkaðsverði.“