„Þessi sami ráðherra lét þetta ekki nægja heldur hefur hann verið önnum kafinn við að lofa nýjum þjóðarleikvangi, með pomp og prakt. Svo kom fjármálaáætlun ríkisstjórnar hans og þar var hvergi minnst á eina krónu í nýjan þjóðarleikvang. Ráðherrann hefur ekki látið ná í sig síðan, mætir ekki í fyrirspurnatíma í þinginu enda erfitt að horfast í augu við eigið innihaldsleysi,“ skrifar Bergþór Ólason sveitungi Ásmundar Einars Daðasonar í Moggann.
Bergþór gerir grín af trúgirni Ásmundar Einars, húseiganda og leigusala í Borgarnesi. Eina sem hefur gerst er að tekin var mynd af ráðherranum og borgarstjóranum. Lengra er varla komið með þjóðarhöllina. Alveg dæmigert.
Bergþór er ósáttur við áform Ásmundar Einars um sameiningu framhaldsskóla.
„Þær eru kaldar kveðjur Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra barna- og menntamála, til kvenna á Íslandi þessi dægrin. Hann hefur nú lagt til að leggja niður Kvennaskólann í Reykjavík og binda þar með enda á 150 ára sögu skólans. Það voru konur sem stofnuðu skólann á sínum tíma – konur sem ekki fengu inni í Lærða skólanum (nú Menntaskólanum í Reykjavík) og gripu til sinna ráða. Konur sem mátu menntun mikils og skildu að hún væri grundvöllur betra lífs og sjálfstæðis. Skólinn ruddi brautina í menntun kvenna og starfar enn í dag við góðan orðstír og er eftirsóttur af nemendum þessa lands ár hvert. Ráðherranum virðist standa á sama um þetta allt og telur viðeigandi að loka einfaldlega dyrunum,“ skrifar Bergþór.
Þetta eru í raun ótrúleg skilaboð ráðherrans og Framsóknarflokksins til kvenna – þeirra saga skiptir ekki máli og má slaufa með einu pennastriki. Engar fleiri ungar konur skulu fá möguleika á því að setja mark sitt á þessa 150 ára sögu Kvennaskólans. Það má vona að af þessu verði ekki og ráðherrann verði hrakinn til baka með þessa tillögu sína. Það er auðvelt að tala og þykjast styðja sögu og réttindi kvenna en annað að standa við það og velja leiðir við völd sem endurspegla þá afstöðu.“