- Advertisement -

Árvekni gagnvart verka-kellingum

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Davíð Þorláksson sem er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA skrifar grein í Þjóðmál. Tilefnið er 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins en Davíð hefur frá barnsaldri starfað í þjónustu hans (mikið er það nú gott að á Íslandi er mikil Árvekni gagnvart verka-kellingum í verkalýðsbaráttu og tengslum þeirra við stjórnmálaflokka; hinir Árvöku gera okkur öllum endalausan greiða með hrópum sínum um þá fordæmalausu ósvífni og glæpahneigð!).

Þú gætir haft áhuga á þessum
Davíð Þorláksson.

Davíð talar um hitt og þetta, segir meðal annars að Sjálfstæðisflokkurinn sé „stærsti velferðarflokkurinn“ í landinu sem er áhugaverð afstaða í ýmsum ljósum, m.a. og t.d. því ljósi að fyrir skemmstu sendu Samtök atvinnulífsins inn umsögn um heilbrigðisstefnu á Íslandi til ársins 2030 þar sem þau kalla m.a. eftir „róttækum breytingum á stjórnkerfi heilbrigðismála“ en í því felst samkvæmt SA að einkaframtakið verði ekki lengur pínt og jaðarsett. Samtökin vilja líka meiri „útsjónarsemi einstaklinga til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu“ og „samkeppni og fjölbreytt rekstrarform til að ná fram hagræðingu, aukinni hagkvæmni og gæðum“. Enda segir ekkert betur Velferð eins og Einkavæðing heilbrigðiskerfisins, spyrjið bara Ameríku (sem Davíð kallaði í annari ritgerð sinni Flaggskip kapítalismans. Ship Ahoy!). En æ úpps, þarna gleymdi ég að SA og Sjálfstæðisflokkurinn eru auðvitað ekki það sama. Ég biðst afsökunar á ruglinu.


Einnig nefnir hann aflamarkskerfið í sjávarútvegi en mikilvægt er að flokkurinn standi áfram vörð um það af því að eignarhaldi á auðlindum er best komið í höndum einstaklinga, sérstaklega í ljósi þess að einstaklingar geta grætt á því sirka milljarð á ári.


Í kaflanum um persónufrelsið er líka rætt um séreignastefnuna í húsnæðismálum en hún er „rík í hugum landsmanna“ og þess vegna vilja um 80% þeirra sem búa á leigumarkaði frekar búa í eigin húsnæði. Ekki vegna þess að leigumarkaðurinn hefur verið settur í hendur „séreigar-anna“, annað hvort einstaklinga eða fyrirtækja sem hafa vegna „frelsi einstaklingsins“ (corporations eru jú líka people my friends) fengið að ráða því alveg sjálf hver leigan er, ekki vegna þess að flest þeirra sem eru á leigumarkaði tilheyra lágtekjuhópunum sem gerir það að verkum að risavaxinn partur af ráðstöfunartekjum fara í leiguna af því að engin leigubremsa er til staðar, bara framboð og eftirspurn, bitches (væri gaman að fá að heyra viðhorf Davíðs til leigubremsu og aukinnar lagaverndar til handa leigjendum), ekki vegna þess að leigjandinn nýtur einskis öryggis af því að eignastéttin nýtur alls öryggisins sem þýðir að eignalaust fólk og fjölskyldur þurfa að standa í flutningum svona einu sinni á ári;
ó nei, heldur bara af því að séreignarstefnan er rík í hugum landsmanna. Þannig að næst þegar að Efling eða Íbúðarlánasjóður eða bara mamma þín spyr leigjendur um það af hverju þau vilja komast af leigumarkaði þarf ekkert að spyrja að því og bara betra að sleppa því; á eyjunni erum við bara öll alltaf í séreignarstefnunni. Það bara er svoleiðis og óþarfi að velta eitthvað fyrir sér orsökum og afleiðingum og í raun bara móðgun við þjóðarsálina. Áfram Ísland!

En ég ætlaði samt ekkert að röfla um þetta heldur kaflann1.3; Um Persónufrelsið þar sem Davíð talar um persónufrelsi. Mikilvægir punktar sem þar eru nefndir eru sykurskattur en hann er vondur og viðskiptafrelsi með eiturlyfið áfengi en það er gott (sérstaklega fyrir æsku þessa lands). Einnig nefnir hann aflamarkskerfið í sjávarútvegi en mikilvægt er að flokkurinn standi áfram vörð um það af því að eignarhaldi á auðlindum er best komið í höndum einstaklinga, sérstaklega í ljósi þess að einstaklingar geta grætt á því sirka milljarð á ári.

Í kaflanum fjallar Davíð líka um að okkur beri siðferðileg skylda til að taka vel á móti innflytjendum en sem betur fer er það ekki bara siðferðileg skylda heldur “sýna rannsóknir að í þróuðum ríkjum hafa innflytjendur jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra sem fyrir eru í landinu. Þeir sinna störfum sem væri ella ekki sinnt og þurfa að kaupa vörur og þjónustu og auka þannig hagvöxt.” (Fyrir öll þau sem styðjast ekki mikið við siðferðilegar skyldur heldur meira við útreikninga á hagvexti í tilveru sinni hljóta þetta að vera góðar fréttir. Til hamingju þið sem fyrir voruð í landinu).

Að halda þessu fram, sérstaklega á þessum tímapunkti í Íslandssögunni, er eiginlega til marks um að það sé einmitt ekki vilji til að axla siðferðilega skyldu á því að „taka vel á móti“ innflytjendum. 

En ég ætla að verða leiðinleg og benda á smá þversögn sem ég upplifi mjög sterkt í þessum kafla og hún er þessi:
Það er ekki hægt að axla siðferðilega skyldu og taka vel á móti innflytjendum annars vegar og halda því hins vegar fram að húsnæðisstefna stjórnvalda eigi fyrst og fremst að snúast um séreignarstefnuna. Að halda þessu fram, sérstaklega á þessum tímapunkti í Íslandssögunni, er eiginlega til marks um að það sé einmitt ekki vilji til að axla siðferðilega skyldu á því að „taka vel á móti“ innflytjendum. 
Stór hluti innflytjenda er á leigumarkaði, hærra hlutfall innflytjenda en þeirra sem hér fæddust búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað og innflytjendur búa frekar í of litlu húsnæði. Og ef að lausnin á vandanum sem þetta fólk er í vegna húsnæðisástandsins, ástands sem er tilkomið af því að markaðurinn brást algjörlega og fullkomlega í að leysa aðgengi innflytjenda og láglaunafólks að húsnæði á eðlilegu og sanngjörnu verði (og af því að séreignarstefnan er sérstaklega útbúin fyrir þau sem hafa góðar tekjur, aðgengi að lánsfé og aðgengi að fjármunum velviljaðra foreldra) er að halda áfram að bjóða upp á það sama, af því að “séreignarstefnan er rík í hugum landsmanna” þá er augljóst að fólkið sem getur ekki keypt sér íbúð heldur áfram að pínast í streði og erfiðleikum, fast í þeim aðstæðum að horfa alltaf fyrsta hvers mánaðar á stóran hluta ráðstöfunartekna sinna beint í vasann hjá öðrum. 
Eitt af því mikilvægasta í því að taka vel á móti þeim sem hingað koma til að vinna og keyra áfram hjól hagvaxtarins er að tryggja þeim aðgang að góðu húsnæði á mannsæmandi verði. Til þess þarf gott og heilbrigt leiguumhverfi þar sem strangar reglur gilda um leigubremsur, þar sem leigjendur njóta mikils öryggis, þar sem uppbygging á félagslegu húsnæði er hröð og markviss; þar sem aðgengi að góðu húsnæði á góðu verði er einfaldlega grundvallar réttur vinnuaflsins.

Í kaflanum Að lokum sem er síðasti kaflinn segir Davíð að til að höfða til nýrra kynslóða eigi að tala um hugmyndafræði ef maður hafi svoleiðis til að tala um. Ég fagna þessum orðum Davíðs og hvet hann og hina í flokknum til dáða og segi þá Að lokum:
Taliði um hugmyndafræðina ykkar mikið og oft, sérstaklega séreignarstefnuna í húsnæðismálum og reynið að útskýra fyrir unga fólkinu, sérstaklega unga innflytjenda-fólkinu, hvað hún og þið séuð góð fyrir þau, hversu miklum árangri hún og þið hafi skilað fyrir þau í húsnæðismálum og hversu vænleg hún og þið séuð til árangurs í húsnæðismálum framtíðarinnar. Þegar boðskapurinn er svona áhrifamikill, árangurinn svona sýnilegur og sannfæringin svona heit hljóta jú öll að hrífast með?




Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: