- Advertisement -

Áróður Ronald Reagan á leið í bíó

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Þegar KPMG í Danmörku hélt því fram í skýrslu árið 2011 að öryrkjar svindluðu á kerfinu svo að um 3-5% þeirra fjármuna sem ætlað var að styðja bjargarlaust fólk enduðu í vösum þeirra sem væru fullfrískir og þyrftu á engri hjálp að halda flaug sú saga um víða veröld, fékk vængi. Enda virtist þarna komin sönnun þess að Ronald Reagan og fleiri nýfrjálshyggjupáfar höfðu haldið fram að; að kjör öryrkja og annarra bótaþega væru svo góð að fjöldi fólks reyndi hvað hann gæti til að komast á örorkubætur og deila kjörum með öryrkjum. Reagan markaðssetti hugtakið Welfare Queen og hamraði á að þau kerfi sem byggð höfðu verið upp til að aðstoða bjargarlaust fólk væru ekki bara misnotuð stórkostlega af óprúttnu fólki, einkum einstæðum mæðrum, heldur væri kerfið sjálft í raun helsta orsök bjargarleysis og fátæktar, það lokkaði til sín óheiðarlegt fólk sem festist í kerfinu. Lausn Reagan og annarra nýfrjálshyggjupáfa var að brjóta niður þessi kerfi svo hinir óheiðarlegu öryrkjar neyddust til að fá sér heiðarlega vinnu.

Alþingi og ríkisstjórn rauk til og veitti Trygginagstofnun aukna heimild til persónunjósna til að afhjúpa öryrkja.

Danska skýrslan var varla útgefin fyrr en hún fékk vængi á Íslandi, enda er íslenskt samfélag með þeim verst förnu eftir nýfrjálshyggjuna; hér er fátækraandúð (aporofóbía) nánast inngróin í stjórnsýslu og stofnanir, samfélagsumræðu og fjölmiðla. Ríkisendurskoðun smíðaði sína eigin skýrslu á þeirra dönsku og kallaði: Eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum. Þar var því haldið fram að óheiðarlegt fólk hefði svindlað um 3,4 milljarða króna út úr Tryggingastofnun á árinu 2011 (um 4,2 milljarðar króna á núvirði). Alþingi og ríkisstjórn rauk til og veitti Trygginagstofnun aukna heimild til persónunjósna til að afhjúpa öryrkja og almennt var rætt um bótasvindl sem meginmeinsemd í samfélaginu, almenningur var ekki að sligast undan byrðunum af auðvaldinu, sem okraði og arðrændi, heldur af öryrkjunum sem stálu og svindluðu.

Síðar hefur komið í ljós að skýrsla í Danmörku var tóm þvæla, í raun lítið annað en samantekt á fordómum fólks gagnvart öryrkjum. Það er almennt viðurkennt í dag að bótasvindl sé svo hverfandi að það lítil ástæða sé til að vera með sérstakan viðbúnað vegna þess; ekki síst þar sem enginn verður öryrki nema eftir mat margra aðila úr ólíkum fagstéttum og að kjör öryrkja eru svo ömurleg að það dettur engum í hug að teygja sig eftir þeim, hvað þá að ljúga þeim upp á sig. Þegar ég segi að þetta sé almennt viðurkennt, tek ég ekki tillit til þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og annarra nýfrjálshyggju- og mannhaturssamtaka; innan þeirra er enn fólk sem getur vart opnað á sér munninn án þess að út úr honum velli fátækraandúð og -hatur. En það er ekki hægt að halda uppi alvarlegu samtali og reyna á sama tíma að halda því liði innan þess. Þannig er það bara.

Loksins þegar öryrkjar geta farið í leikhús eða bíó og séð sjálfan sig þá er það persóna sem salur hlær að og fyrirlítur.

En hvað um það. Á hápunkti umræðunnar um Welfare Queen á Íslandi frumsýndi Borgarleikhúsið leikrit Ragnars Bragasonar um eina slíka, sem átti að búa upp í Fellahverfi og lifa þar einskonar gnægtarlífi á bótum. Auðvitað er ekki hægt að kvarta undan efnistökum einstaka listaverka en það verður að segjast að það er ömurlegt að loksins þegar íslenskur öryrki fékk að vera með í leikritum íslenskra listaelítu þá skuli hann hafa verið hæddur sem bótasvindlari og þjóðníðingur. Það var ekki fyrr en umræðan um örorkubætur Tryggingastofnunar höfðu snúist svo gegn öryrkjum að þeir voru í almennri umræðu málaðir sem glæpalýður, þá fyrst stökk stofnanaleikhúsið til og leyfði öryrkja að vera aðalpersónan í leikverki sem sett var á stóra sviðið.

Nú hefur þetta leikrit fengið styrk frá Kvikmyndasjóði og nýsköpunarráðuneytinu. Það er sem sé von á mynd um bótasvindl íslenskra öryrkja og það sældarlíf sem þeir lifa af því að svindla á okkur hinum. Í boði stjórnvalda. Loksins þegar öryrkjar geta farið í leikhús eða bíó og séð sjálfan sig þá er það persóna sem salur hlær að og fyrirlítur. Persónu sem er klippt úr úr áróðri Ronald Reagan gegn mannúð.

Til fróðleiks þá er í dag talið að óréttmætar bætur (af allskyns tilefni þ.m.t. handvammar við að skila inn réttum gögnum) séu innan við 0,7% af heildarfjárhæðinni. Megnið af því leiðréttist sjálfkrafa, t.d. lækka bætur sjálfkrafa þegar upplýsingar koma fram um arf eða auknar tekjur þótt hlutaðeigandi hafi láðst að tilkynna það strax. Til samanburðar liggja fyrir rannsóknir sem benda til að hin allra auðugustu í samfélaginu stingi um 1/3 hluta tekna sinna undan skatti.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: