- Advertisement -

Árni segir ekki af sér

Stjórnmál „Mér finnst út í hött að einhverjum sé ætlað að segja af sér starfi sem bæjarfulltrúi, eins og andstæðingar stóriðju í Helguvík halda fram, af því að hann kann að vera á annarri skoðun en meirihluti bæjarbúa, samkvæmt skoðanakönnun í einhverju máli. Kjörtímabili þessarar bæjarstjórnar lýkur í maí á næsta ári. Þá veita bæjarbúar næstu bæjarfulltrúum umboð sitt,“ segir Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri, í Reykjanesbæ.

Árni svarar á Facebook fyrirspurn andstæðinga stóriðju í Helguvík. Þeir óska að þeir bæjarfulltrúar sem eru ekki á móti uppbyggingu kísilvera í Helguvík og tilvonandi uppbyggingu Kísilvers Thorsil í Helguvík segi af sér embætti.

„Ef Thorsil stenst allar kröfur um þetta, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að slíkt fyrirtæki geti verið í rekstri á Helguvíkursvæðinu og skapað íbúum vel launuð störf og stuðlað að fjölbreytni í atvinnuflórunni. Ef það stenst ekki þessar kröfur, á ekki að veita slíku fyrirtæki rekstrarleyfi,“ skrifar bæjarstjórinn fyrrverandi.

Árni þekkir væntanlega vel þær forsendur sem stuðst var við þegar ákvarðanir voru teknar. Hann skrifar: „Reynslan af tíðum mistökum í upphafsreksti US, sem leitt hefur mengun yfir bæjarbúa, ætti að leiða til þess að mjög treglega væri farið í að rýmka rekstrarleyfi verksmiðjunnar, ef hún á annað borð fengi heimild til að hefja rekstur að nýju. Höfnin hefur t.d. í sínum áætlunum aldrei gert ráð fyrir fleiri en 2 ofnum frá United Silicon.
Hið sama myndi gilda um aðrar verksmiðjur af sama toga.
Að því gefnu að það standist að engin mengun sé frá þessari starfsemi, því þá væri hún stöðvuð, má gera ráð fyrir að tekjur samfélagsins í Reykjanesbæ af þessari framleiðslu, hafnargjöld og fasteignagjöld nemi um 4 þúsund milljónum á næstu 10 árum.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: