Fréttir

Arnar Þór svarið við Miðflokki?

By Miðjan

May 08, 2021

Það þrengir að hjá í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum. Bjarni Benediktsson er viss um að halda fyrsta sæti á listanum. Annað er í óvissu.

Þingmennirnir Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Bryndís Haraldsdóttur eru trúlega í fallhættu. Vilhjálmur Bjarnason sækist enn á ný eftir þingsæti og nú hefur Arnar Þór Jónsson héraðsdómari tilkynnt framboð.

Arnar Þór er í drjúgu Moggaviðtali í dag. Þar kemur fram að Arnar Þór muni sækja til baka það fylgi sem einhvern tíma hrökk yfir til Miðflokksins. Hér er valið brot úr viðtalinu:

„Ég tel að Ísland standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hefur glímt við frá stríðslokum. Við erum komin í samstarf þar sem okkur er veittur aðgangur að ákveðnum markaði gegn þeim skiptum að erlendir aðilar setji okkur lög og taki ákvarðanir fyrir almenning og fyrirtæki hér í sívaxandi mæli. Og þegar það er svo komið, að erlendir aðilar eru jafnvel farnir að seilast í ítök yfir náttúruauðlindum okkar, verða Íslendingar að fara að vakna af þyrnirósarsvefni og taka til ýtrustu varna,“ segir Arnar Þór. „Við núverandi ástand verður ekki unað.“