Nú er ljóst að Arnar Grant mun bera vitni í máli Vítalíu Lazarevu – það er ef málið fer fyrir dómstóla; en Vítalía hefur kært Hreggvið Jónsson, Þórð Má Jóhannesson og Ara Edwald til lögreglu fyrir ofbeldi af kynferðislegum toga.
Eins og flestir muna þá steig Vítalía fram í hlaðvarpsþættinum Eigin Konur í byrjun þessa árs; lýsti þar ofbeldi sem hún segir Ara, Þórð og Hreggvið hafa beitt sig í sumarbústaðaferð haustið 2020.
Í frásögn Vítalíu segir að hún hafi mætt í bústaðinn, en þegar liðið hafi á kvöldið, hafi verið farið yfir öll hennar mörk í kynferðislegum skilningi.
Eins og áður kom fram mun Arnar Grant bera vitni í máli Vítalíu gegn þremenningunum; en enn sem komið er hefur Vítalía ekki gefið skýrslu í málinu og það sama segir Arnar Grant; en alls óvíst er hvort Ari, Þórður og Hreggviður hafi verið boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglunni.
„Ég er vitni í málinu. Ég sá hvað gerðist og þessar lýsingar hennar, sem hún hefur komið með, þær eru ekki fjarri lagi,“ segir Arnar í samtali við Vísi.
„Rétt skal vera rétt. Ég get ekki tjáð mig mikið um málið þar sem þetta er á borði lögreglu. Ég get ekkert annað og stend bara með sannleikanum.“
Eftir að málið komst í hámæli var greint frá því að Ari Edwald, þáverandi framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, hefði stigið til hliðar úr stjórn fyrirtækisins.
Sama var uppi á teningnum varðandi Hreggvið Jónsson, sem var þá stjórnarformaður og aðaleigandi Veritas Capital; hann fór úr stjórn þess og stjórnum tengdra fyrirtækja.
Þá sagði Þórður Már sig úr stjórn Festar vegna málsins og títtnefndur Arnar Grant hætti tímabundið störfum hjá World Class, en þar starfaði hann sem einkaþjálfari í verktakavinnu.