STJÓRN Arkitektafélagsins hefur sent frá sér athugasemdir vegna tröllvaxna vöruhússins að Álfabakka 2. Arkitektar hvorki teiknuðu né hönnuðu húsið. Komu hvergi þar nærri.
Bréf félags þeirra er svona:
„Í tilefni af mikilli umræðu í samfélaginu um vöruhús við Álfabakka 2 sem nýlega var byggt við hlið íbúðarhúss vill Arkitektafélag Íslands koma eftirfarandi á framfæri.
Margir aðilar koma að mótun borgarumhverfis
Arkitektar eru sérmenntaðir í að hanna út frá þörfum manneskjunnar á fagurfræðilegum grundvelli, en það er mikill misskilingur að halda að þeir einir komi að mótun borgarumhverfisins. Það gera einnig byggingafræðingar, byggingatæknifræðingar, verkfræðingar, landslagsarkitektar og fleiri. Vöruhúsið að Álfabakka 2 var ekki hannað af arkitekt.
Eitt eru deiliskipulagsheimildir, annað er góð hönnun borgarumhverfis
Af umræðu síðustu daga um Álfabakka 2 má draga þann lærdóm að það er ekki sama hvernig heimildir í deiliskipulagi eru nýttar. Þótt eitthvað megi gera samkvæmt deiliskipulagi þýðir það ekki að það eigi að gera það. Að hanna inn í umhverfi krefst næmni og skilnings á því hvernig byggja á borg, næmni og skilnings sem arkitektar hafa fengið menntun og þjálfun til að gera.
Ábyrgðin liggur víða
Við hönnun borgarumhverfisins er það einnig hlutverk allra aðila sem að því verki koma að setja íbúana í forgang og hugsa verkefnin út frá þörfum þeirra og samfélagsins í heild. Það er augljóst hve mikilvægt það er að skilyrði um þetta séu til staðar í skipulags- og byggingarreglugerð. Að í reglugerðum sé fjallað sérstaklega um gæða arkitektúr, birtuskilyrði í íbúðum, sólarstundir á dvalarsvæðum og rými milli húsa í blandaðri byggð svo fátt eitt sé nefnt.
Löggjafinn, borgin og sveitarfélög ásamt skipulags- og byggingaryfirvöldum bera ábyrgð á því að móta rammana sem borgarumhverfið er hannað eftir og framfylgja þeim. Hönnuðir bera ábyrgð á að hanna borgarumhverfi til framtíðar með gæði og velferð að leiðarljósi fyrir bæði íbúa og samfélag.
Þannig græðum við öll.
Stjórn Arkitektafélags Íslands.“