„Frá árinu 2018 þegar núverandi meirihluti tók við stjórn sveitarfélagsins hafa tekjur A-hluta bæjarsjóðs hækkað um 1.667 millj. kr., en gjöld hækkað um 2.361 millj. kr. Tekjur dugðu ekki fyrir rekstri á árinu 2020 og versnaði afkoma sveitarfélagsins um 900 millj. kr. frá árinu 2018. Yfirlýst markmið nýs meirihluta var að „stoppa lekann“, meintan útgjaldaleka úr bæjarsjóði. Ljóst er að lekabyttan lekur allhressilega,“ segir meðal annars í grein sem Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar í Mogga dagsins.
Þar segir líka: „Sveitarfélagið Árborg getur ekki talist rekstrarhæft þar sem það þarf að taka lán fyrir rekstrinum. Sú staða er afar dapurleg þótt ekki meira sé sagt, en þrátt fyrir það fagnar bæjarstjóri því í greinargerð sinni að sveitarfélagið sé á leið í skuldabréfaútboð, sem verulegar líkur eru á að skili hærri vöxtum en Lánasjóður sveitarfélaga getur boðið þeim sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði til að vera þar í viðskiptum. Staðan er alvarleg og er ekki útlit fyrir að hún batni á yfirstandandi ári.“