Vilhjálmur Bjarnason, sveitungi Bjarna Benediktssonar og fyrrverandi þingmaður flokks Bjarna, sendir félaga sínum nett skot á síðum Moggans í morgun. Hann segir að hér ríki áráttuhegðun. Hér er valinn kafli úr skrifum Vilhjálms Bjarnasonar:
„Hér í landi er komin upp áráttuhegðun um að skattleggja allt sem hreyfist. Enn alvarlegri er áráttan að skattleggja allt sem hægt er að skattleggja til að breyta neyslu og hegðun. Því minni trú sem stjórnmálamenn hafa á markaðshagkerfi, þeim mun meiri trú hafa þessir sömu stjórnmálamenn á að hægt sé að stjórna hegðun með skattlagningu og verðbjögun, á grundvelli verðteygni.
Þannig þykir það sjálfsagt mál að skattleggja sykruð matvæli til að draga úr sykurneyslu og það þykir einnig sjálfsagt mál að skattleggja tekjur af fjáreignum, ekki til að draga úr fjáreignum, heldur til tekjuöflunar og „jöfnunar“. Ef röksemdafærslan um „sykurskatt“ er yfirfærð á fjáreignir ætti að draga úr fjáreignum því eftirspurn eftir fjáreignum mun minnka og þar með vextir að hækka.
Svo er til samúðarsetning. „Það má ekki leggja á notkunargjöld vegna þess að þau koma svo ójafnt niður á greiðendum.“ Gjald er gjald og skattur er skattur. Á þessu er grundvallarmunur. Þeir sem keyra um Hvalfjarðargöng kaupa sömu þjónustu og slíta göngunum jafn mikið, hvort heldur ökumaður er tekjuhár eða tekjulágur!
Fyrir Alþingi liggja áform um „sérstakan“ skatt á ferðaþjónustu og er áætlað að hann skili allt að 1.750 milljónum króna. Þeir, sem reka ferðaþjónustufyrirtæki greiða skatta af hagnaði. Þeir, sem njóta ferðaþjónustu, greiða skatt af þeirri neyslu og þjónustu er þeir njóta. Ferðaþjónusta er að mestu leyti útflutningur á þjónustu og matvælum sem neytt er hér.
Sá er munur á þeim þjónustuútflutningi og vöruútflutningi að fyrirtæki, sem framleiða vöru til útflutnings, greiða engan virðisaukaskatt af starfsemi sinni en neytendur ferðaþjónustu greiða um 35 milljarða í virðisaukaskatt af sínum vöru- og þjónustukaupum. Að auki greiða leigjendur bifreiða um 5 milljarða í eldsneytisgjöld í akstri sínum. Starfsmenn greiða svo tekjuskatt af launum sínum, óháð atvinnugreinum. Og fyrirtæki greiða skatt af hagnaði.
Tekið skal fram að njótendur vöru og þjónustu greiða virðisaukaskatt, en ekki atvinnugreinin ferðaþjónusta.
Vissulega eru ferðamenn á hreyfingu og þá kemur áráttuhegðunin; „skattleggjum allt sem hreyfist“. Þá kemur viðkvæðið: „skatturinn lendir á útlendingum“. Það er eins gott að útlendingar skilji ekki íslensku! Hver sem kemst að því að hann er aðeins skattborgari en ekki viðskiptavinur, fær viðbjóð og súrt bragð í munn! Og hættir viðskiptum við þegna slíks þjóðríkis sem lítur á viðskiptavin sem andlag til ráns!