- Advertisement -

Árásunum á að bregðast við með þeim vopnum sem verkalýðshreyfingin býr yfir

Að auki uppfyllir „Virðing“ ekki ýmsar lögbundnar skyldur sínar gagnvart félagsmönnum m.a. er varðar rekstur sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs.

„Miðstjórn ASÍ beinir því til allra heiðvirðra atvinnurekenda að hafna afdráttarlaust markmiðum og aðferðarfræði veitingamanna á vettvangi SVEIT og „Virðingar“ sem grafa undan réttindum launafólks til þess eins að skapa sjálfum sér betri samkeppnisaðstöðu gagnvart þeim sem löglega standa að rekstri fyrirtækja sinna.

Miðstjórn beinir því einnig til aðildarfélaga ASÍ að bregðast af fullri hörku við þessari aðför að kjörum og réttindum starfsfólks og grípa til þeirra aðgerða sem þörf verður á til þess að hrinda henni.

Miðstjórn vekur athygli á að kjarasamningur „Virðingar“ við SVEIT felur í sér augljósan ásetning um að skerða kjör og réttindi starfsfólks í veitingageiranum. Það á við um lengingu dagvinnutíma, lækkun kvöldvaktaálags, beina lækkun launa í tilfelli starfsmanns á veitingahúsi með eins árs starfsreynslu, niðurfærslu orlofsréttinda, skertan veikindarétt og fleira. Að auki uppfyllir „Virðing“ ekki ýmsar lögbundnar skyldur sínar gagnvart félagsmönnum m.a. er varðar rekstur sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs.

Miðstjórn telur heiti þessa nýja „stéttarfélags“ lýsa fádæma ósvífni og að meintur „kjarasamningur“ þess við SVEIT feli í sér aðför og fullkomið virðingarleysi gagnvart vinnandi fólki í landinu og löglegum stofnunum á vinnumarkaði. Þeir atvinnurekendur sem þannig ganga fram eru engrar virðingar verðir.

Miðstjórn Alþýðusambandsins lýsir yfir óbilandi og skilyrðislausri samstöðu með launafólki í veitingageiranum. Miðstjórn lýsir yfir stuðningi við réttindabaráttu þess og við gerð raunverulegra kjarasamninga í stað skipulegrar viðleitni til að níðast á láglaunafólki, ekki síst innflytjendum og ungmennum. Árásum af þessum toga er heimilt að bregðast við með þeim vopnum sem verkalýðshreyfingin býr yfir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: