Anna Kristjánsdóttir, vélstjóri á eftirlaunum, vill að Íslendingar hætti að ausa peningum í Eurovision-keppnina eftir frekar dapurt gengi Systra á úrslitakvöldinu á laugardaginn. Hún segist ekki hafa hoppað af kæti yfir úrsliltinum og því sé „best sé að hætta þessum fjáraustri með þátttöku í keppninni,“ segir Anna í færslu á Facebook.
Eins og alþjóð veit lentu Systur í 23. sæti með lagið sitt Með hækkandi sól og voru stigin ekki mörg sem sveitin hlaut í úrslitunum. Anna fór yfir upplifun sína:
„Greinilegt var að Íslendingar áttu ekkert inni hjá neinum frekar en fyrri daginn, héldu áfram að greiða Svíum atkvæði sín að venju eins og auðsveipir rakkar, en fengu ekkert til baka. Miðað við mörg atriði sem fengu mörg stig í keppninni eins og til dæmis Noregur með sína hörmung held ég að best sé að hætta þessum fjáraustri með þátttöku í keppninni,
Sjálf er ég enginn aðdáandi Júróvisjón, en ákvað að gefa þessari keppni tækifæri vegna frábærrar frammistöðu Systranna og bróður þeirra, en varð fyrir vonbrigðum með úrslitin.
Niðurstaða, því meiri fíflaskapur, þess fleiri stig. Tónlistin er aukaatriði. Ég fullyrði að ekkert lag úr þessari keppni muni verða langlíft.“