- Advertisement -

Anna Kristjáns deilir vandræðalegri uppákomu á Tenerife: „Hverskonar asni gat ég verið?“

Vélstjórinn Anna Kristjánsdóttir, sem nýtur lífeyrisáranna á Tenerife, segir frá vandræðalegri uppákomu sem hún upplifði nýlega á eyjunni fögru. Hún hélt að þrjótar væru á eftir henni ítrekað en þegar betur var að gáð voru allar símhringirnar af heldur sakleysislegri toga.

Anna segir frá reynslu sinni í nýjasta pistli sínum á Facebook en þar er hún duglega að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með hennar daglega lífi á Tenerife. Að þessu sinni hélt hún að símaþrjótar væru að hrella sig og til að skýra þetta betur skulum við grípa niður í pistil vélstjórans:

„ Stundum fær ég einkennileg skilaboð í símann minn á borð við “Grunur um ruslnúmer” eða “Möguleg svik”. Að undanförnu hefur verið nokkuð mikið um þetta, þá sérstaklega áminninguna “Grunur um ruslnúmer”. Síðustu vikuna hefur eitt númer verið áberandi, margbúið að hringja úr því, en þar sem ég hefi blokkað númerið, hefi ég ekki heyrt það né sinnt því á neinn hátt. Það birtist samt á skjánum í hvert sinn sem reynt er að hringja úr því í mig. Helvítis svikahrappar. Eins gott að passa sig á þeim, ekki síst eftir að einhverjum tókst af hafa af mér nokkra upphæð með símasvindli. Hér er sko ekkert gefið eftir og ekki boðið upp á neitt svindl frekar. Ekki orð um það meir að sinni.

Í gær sat ég allan daginn og beið eftir garðhúsgögnunum mínum. Helena kom við hjá mér og vildi endilega hjálpa mér með því að hringja í húsgagnaverslunina. Það kom einhver símsvari og ekkert gagn af slíku. Þetta gengur ekki lengur. Við sammæltumst um að fara bara í búðina seinnipartinn á morgun, þ.e. í dag og ræða við starfsfólkið. Svona þjónusta gengur ekki. Svo skáluðum við Helena í Diamante og fórum að ræða önnur mikilvægari málefni eins og lausn heimsgátunnar. Ég fór að segja henni frá öllum ruslnúmerunum sem höfðu reynt að hringja í mig og nefndi það sem oftast hafði hringt og þá í spænska númerið mitt og ég hafði blokkerað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvaða númer sagðir þú? Ég ítrekaði númerið og þá sagði Helena: Þetta er númerið í versluninni. Þeir eru búnir að reyna að hringja í þig í marga daga og þú ert með blokkerað númerið þeirra. Ég fann hvernig eyrun á mér lengdust upp í loftið. Hverskonar asni gat ég verið? Þótt ég gerði mér grein fyrir slæmu gáfnafari mínu, var óþarfi að annað fólk benti mér á slíkt hið sama. Ég hefi reyndar mér til málsbóta að síminn minn sagði mér allan tímann að þetta væri ruslnúmer sem það reyndist alls ekki vera. Síminn (þ.e. fyrirtækið) er saklaus því þetta birtist (á íslensku) þegar hringt var í spænska númerið mitt. Það er kominn tími til að ræða alvarlega við þá hjá símafyrirtækinu Orange.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: