Anna Kristjánsdóttir býr á Spáni – nánar tiltekið á Tenerife; hún skrifar helling af athyglisverðum og skemmtilegum pistlum – hér er einn:
„Ég vaknaði eldsnemma í gærmorgun, setti inn pistil dagsins og hljóp af stað. Þegar vigtin mín segir mér að ég sé orðin of þung er einungis tvennt til ráða, sleppa brauðinu hvort heldur er í föstu eða fljótandi formi og hlaupa af stað, og ég hljóp af stað.“
Anna bætir við:
„Ókey, ég hljóp kannski ekki, en gekk rösklega golfhringinn, þó án þess að fitna við að snerta á golfkylfu og eftir rúmlega einn golfhring var stefnan tekin á snobbhreppinn Adeje.“
Hún segir einnig að „eftir góðan hring þar var komið niður að Monkey-bar; síðan Hverfisgatan, Laugavegurinn og Vistaströndin og heim aftur: Samtals þrettán kílómetrar; ekki veitir af. Vigtin mín sýndi yfir 90 kílóa þyngd um morguninn sem er óásættanlegt.“
Eftir fína hreyfingu var komið að smá lúr, sem var aðeins of stuttur að mati Önnu:
„Eftir að heim var komið ákvað ég að fá mér síestu, en ég hafði ekki hvílst lengi er tengdaforeldrar sonarins tilkynntu komu sína og ekki fer ég að hunsa svo ánægjulega heimsókn.
Best að taka fram að tengdaforeldrar sonarins eru indælis fólk, hún Borgfirðingur úr Reykholtsdalnum, hann Skagfirðingur frá Mannskaðahóli á Höfðaströnd og gengst við nafninu Jón mannskaði þótt hann hafi aldrei gert flugu mein.“
Anna nefnir að „um það leyti sem þau kvöddu mætti fyrrum vinnufélagi minn og það var haldið áfram að skála fyrir góðu fólki. Hann hafði unnið með mér frá 2006 er hann kom til Orkuveitu Reykjavíkur af Dettifossi. Við erum ekki lengur vinnufélagar, enda er ég löngu hætt að gera gagn á þeim vettvangi. Svo má deila um hvort nokkurn tímann hafi verið gagn í mér, en það er ekki mitt að dæma um slíkt,“ segir Anna og bætir þessu við:
„En hvað um það. Það er verið að segja að það sé eilíf Paradís að búa í Paradís. Ég veit betur. Að þurfa að drekka áfengi í Paradís er vinna og aftur vinna. Stundum alveg hörkuvinna.Ekki orð um það meir,“ skrifar hin skemmtilega Anna að lokum.