Sviptir fátækt flóttafólk öllum réttindum og von um betra líf.
Gunnar Smári skrifar:
Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka upp starfsgetumat öryrkja. Rökin eru að starfsgetumat hvetji fólk til þátttöku á vinnumarkaði. Samt er vitað að fyrirtæki og stofnanir hafa engin störf í boði sem henta fötluðu fólki. Þvert á móti er vitað að krafa fyrirtækja gagnvart starfsfólki verða sífellt einsýnni, fólk yfir fimmtugt er bolað af vinnumarkaði og á erfitt með að fá aftur vinnu ef það missir hana. Vilji ríkisstjórnarinnar til að örva atvinnuþátttöku öryrkja birtist síðan í krónu á móti krónu skerðingum þar sem hver króna sem öryrkja vinna sér inn á vinnumarkaði leiðir til skerðingar á örorkubótum, öryrkjar búa við um 85% jaðarskatt á sama tíma og auðugasta fólk landsins býr við 20% jaðarskatt.
Afstaða stjórnvalda til öryrkja er litið fátækra-andúð, aporofóbíu, sem lýsir sér í kerfisbundinni mismunun, fordómum og andúð gagnvart þeim sem eru valdalausir í samfélaginu og standa efnahagslega veikt. Andúðin birtist í að á hin fátæku eru lagðar kvaðir sem stjórnvöldum dettur ekki í hug að leggja á aðra hópa; svívirðilegir jaðarskattar, viðvarandi eftirlit og persónunjósnir, langir biðlistar eftir þjónustu sem fólk hefur rétt á, útilokun frá öllum ákvörðunum um eigin málefni, tekjur sem ekki duga fyrir framfærslu og svo framvegis.
Aporofóbía ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnvalda veldur því að aðgerðir til að jafna mismun kynjanna miðast aðeins að betur settum konum. Árangur af jafnréttisbaráttunni nær ekki til láglaunakvenna á leigumarkaði. Aporofóbía ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnvalda veldur því að aðgerðir í húsnæðismálum ná fyrst og fremst til húsnæðiseigenda en ekki til leigjenda, þar sem fjöldinn er láglaunafólk, öryrkjar, námsfólk og eftirlaunafólk. Aporofóbía ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnvalda veldur því að útlendingastefnan hentar millistéttarfólki af erlendum uppruna en sviptir fátækt flóttafólk öllum réttindum og von um betra líf.
Það er ekki hægt að meta eyðileggjandi afleiðingar kvennakúgunar eða útlendingaandúðar án þess að setja þessa kúgun í samhengi við kúgun hinna valda- og efnalitlu. Valdastéttin sættir sig við að þau sem tilheyra henni eða þjóna henni séu af erlendu bergi brotin, af hvaða kyni sem er, ungt eða gamalt, hinsegin, fötluð og hvernig sem er. En valdastéttin þolir ekki fátækt fólk og valdalítið, kúgar það með öllum tiltækum ráðum af ótta við að það rísi upp og krefjist jöfnuðar, jafnréttis og jafnræðis. Sú kúgun getur birst sem fordómar gagnvart uppruna, kynhneigð, aldri, kyni eða hverju sem er; en oftast er slíkt notað til að sundra hópnum, siga körlum gegn konum, innfæddum gegn innfluttum, ungum gegn gömlum og svo framvegis; til þess að draga úr samstöðu hinna valda- og efnalitlu sem öll hafa sameiginlegan hag af því að taka völdin frá hinum ríku og valdamiklu.