Einþáttungur skrifaður af Gunnari Smára:
Fjármálaráðherra: Við verðum náttúrlega að forgangsraða í ríkisrekstrinum
Forsætisráðherra: Já, auðvitað. Við verðum að setja sjúklinga sem þurfa bráðaþjónustu allra fremst og síðan …
Fjármálaráðherra: Uhh, nei. Við verðum að setja fyrirtækja- og fjármagnseigendur fremst, tryggja að þau séu í stuði
Forsætisráðherra: Nú? Af hverju?
Fjármálaráðherra: Samfélagið staðnar ef fyrirtækja- og fjármagnseigendur drífa það ekki áfram, það er fólkið sem knýr samfélagið áfram. Án frumkvöðla gerist ekkert
Forsætisráðherra: En fólk sem fær ekki bót meina sinna innan heilbrigðiskerfisins staðnar líka, kemst ekki út á vinnumarkaðinn og …
Fjármálaráðherra: Já, en við vitum aldrei hvers konar fólk það er, það er ekki víst að það sé gott fólk og duglegt. Duglegt fólk getur náttúrlega keypt sér heilbrigðisþjónustu hvar sem er, mér skilst til dæmis að sjúkrahúsin í Sviss séu frábær. Við vitum hins vegar vel að fyrirtækja- og fjármagnseigendur eru gott fólk, þess vegna getum við alltaf stutt það og styrkt. Það styrkir okkur og við styrkjum það, þannig helst heimurinn saman
Forsætisráðherra: Já, þegar þú setur þetta svona fram þá fattar maður þetta, auðvitað
Fjármálaráðherra: Við höfum því tvo kosti, annars vegar að ausa í hítina í heilbrigðiskerfinu í von um að við getum læknað alla, allskonar fólk sem við vitum ekkert um, og hins vegar að lækka skatta og álögur á fyrirtækja- og fjármagnseigendur, sem við vitum að er dugandi fólk. Hvort viljið þið?
Forsætisráðherra: Megum við velja sjúklingana ef þú velur fyrirtækja- og fjármagnseigendur?
Fjármálaráðherra: Nei, þannig virkar ekki hin breiða pólitíska sátt. Hún er ekki um að allir fái það sem þeir vilja heldur að allir séu sáttir við það sem við viljum
Forsætisráðherra: Já, auðvitað, ég gleymdi mér bara. Þú fyrirgefur
Fjármálaráðherra: Engar áhyggjur, við erum öll mannleg. Við verðum hins vegar að halda aftur að því, megum ekki verða of mannleg. Þá leysist samfélagið upp í einhverri andskotans mannúð