- Advertisement -

Andartaks lotning á Mokka

Mannlíf / Stella Önnudóttir Sigurgeirsdóttir sýnir á Mokka 4. júní til 22. júlí n.k. Andartaks lotning er ellefta einkasýning Stellu, en hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis.

Um er að ræða verk sem Stella vinnur út frá sölnuðum blómum og jurtum. Þetta eru jurtir sem hún hefur rekist á, vakið áhuga hennar og eftirtekt. Hún tekur jurtirnar með sér á vinnustofuna og fylgist með atburðarásinni sem á sér stað þegar þær visna á náttúrulegan hátt. Við upphefjum almennt lífverur á hátindi lífsins, blómaskeiði sínu. En hér nemur Stella staðar við það sem gerist eftir að því blómaskeiði hefur verið náð og upphefur hið litla, smáa og veikburða, sölnað blóm í gullslegnum viðhafnarbúningi. Öll verkin eru unnin í vatnslit, gull, hvítagull eða silfur á tré á þessu ári og síðasta.

„Ljóðrænan og fegurðin við þetta andartak hrörnunarinnar sem blómið fer í gegnum vekur áhuga minn og mig langar til að fanga það augnablik í verkum mínum. Líkt og manneskjan fer eitt lítið blóm í gegnum æviskeið sem mig langar til að draga fram. Þannig upphef ég óhjákvæmilegt aldursskeið þroska, hrörnunar sem við lítum almennt fram hjá og viljum jafnvel afneita að við eigum sameiginlega. Við upphefjum lífveru á hátindi lífsins, blómaskeiði sínu en hér vil ég nema staðar við það sem gerist eftir að því blómaskeiði hefur verið náð.“ SÖS

Stella er fædd 10. janúar 1970 í Reykjavík. Hún nam m.a. við MHÍ, lauk Ba prófi við LHÍ 2000. Stundaði mastersnám í hönnun við LHÍ 2015-´16 og masternám í myndlist við UPV 2016 – ’17 (Polytechnic University of Valencia, Spánn). Hún hefur m..a. starfað við leikmynda og búningahönnun, kennslu og myndskreytingar, samhliða myndlist.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sýningin er sölusýning, þeir sem hafa áhuga á að eignast verk hafi samband við Stellu í síma 698 5020 eða senda tölvupóst á netfangið stellamyndlist@gmail.com eða hjá starfsfólki Mokka.

Sýningin er opin daglega frá kl. 10.00 til 18.00.

Allir velkomnir


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: