„Ef við byrjum á fyrri hluta þessa máls sem snýr að skattaívilnunum vegna fjárfestinga einstaklinga í hlutabréfum eru þær breytingar sem hér eru lagðar til vissulega til góða og til þess fallnar að einfalda einstaklingum eitthvað að nýta sér þennan möguleika,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, í umræðu um frumvarp Bjarna Benediktssonar um auknar skattaívilnanir fyrir fjárfesta.
Þorsteinn telur brýnt að hvetja almenning til kaupa á hlutabréfum.
„Ég held að við hljótum að þurfa að huga að því hvernig við örvum hér almenna fjárfestingu einstaklinga í hlutabréfum, hvort sem er nýsköpunarfyrirtækja eða fyrirtækjum almennt skráðum sem óskráðum, ekki þannig að verið sé að ýta undir of mikla áhættutöku hjá einstaklingum. En staðreyndin er hins vegar sú að þátttaka almennings, einstaklinga, í beinni fjárfestingu í atvinnulífinu er mjög lág hér á landi samanborið við önnur lönd. Hluti af því kann að skýrast af því að að sparnaður okkar í gegnum lífeyrissjóði og þar af leiðandi söfnunarsjóði sem slíka er óvenju mikill, en það breytir því ekki að í raun og veru hefur fjárfesting einstaklinga eða almennings í hlutafé aukist mjög lítið allar götur eftir hrun ef við berum okkur saman við önnur lönd. Hér held ég að mætti ganga miklu lengra í að veita almenna skattafslætti til fjárfestinga í hlutabréfum fyrir einstaklinga og einfalda það lagatorf til mikilla muna sem nú gildir um málið,“ sagði Þorsteinn.
Viljandi eða óviljandi horfir hann fram hjá tapi fólks í hruninu, þegar hinn venjulegi maður sá á eftir sparnaði sínum, ekki síst með falli hlutabréfa þegar fyrirtæki sem fólk taldi örugg urðu einskis virði á einu augnabliki.